Rainbow Warrior, flaggskip umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace, er komið inn á Faxaflóa, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Skipið mun hins vegar ekki koma til hafnar í Reykjavík fyrr en um hádegið á morgun, fimmtudag. Fulltrúar Greenpeace koma hingað til lands til að mótmæla vísindaveiðum Íslendinga á hrefnu. Þeir hyggjast halda blaðamannafund um borð í skipinu á föstudag og sigla með blaðamenn um Faxaflóann. Þá er áætlað að skipið fari hringferð um landið til að kynna málstað samtakanna.
Rainbow Warrior tilkynnti sig til Landhelgisgæslunnar klukkan fimm í morgun og liggur nú við Vogastapa í Stakksfirði. Skipið mun fara umhverfis landið eftir viðdvölina í Reykjavík. Skipið mun koma við á Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði og Höfn í Hornafirði.
Frode Pleym, talsmaður Greenpeace í Osló, sagði við Morgunblaðið á dögunum að markmið heimsóknarinnar væri að kynna sér viðhorf Íslendinga og koma á framfæri mótmælum við hrefnuveiðum. Ekki væri ætlunin að standa fyrir sérstökum mótmælaaðgerðum.
„Við höfum breytt okkar starfsháttum frá þeim tíma þegar samtökin reyndu að koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga á sínum tíma. Engin áform eru uppi nú um aðgerðir á sjó heldur ætlum við fyrst og fremst að kynna okkur skoðanir Íslendinga, jafnt almennings sem yfirvalda. Þegar við komum verður skipið opið hverjum þeim sem vill koma um borð og kynna sér okkar sjónarmið," segir Pleym og vonast til að Grænfriðungar nái fundi með Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra og ýmsum stofnunum og samtökum hér á landi, m.a. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.