Lögð hefur verið fram í breska þinginu ályktunartillaga þar sem lýst er áhyggjum yfir því að Íslendingar skuli hafa byrjað hvalveiðar á ný og vísindaveiðar þeirra á hrefnu fordæmdar.
Aðalflutningsmaður ályktunarinnar er Rob Marris, þingmaður Verkamannaflokksins í suðvesturkjördæmi Wolverhampton. Ásamt honum bera hana upp 10 samflokksmenn hans úr Verkamannaflokknum, þrír þingmenn Frjálslyndra demókrata og einn þingmaður Íhaldsflokksins.
Í tillögunni er jafnframt lýst áhyggjum yfir tillögum Íslendinga, eins og þar segir, um að drepa 500 sandreyðar, langreyðar og hrefnur á næstu tveimur árum. Vikið er að því að bæði á Íslandi og Bretlandi sé hvalaskoðun ábatasöm atvinnugrein og fagnað er harðri andstöðu Breta við hvalveiðar í atvinnuskyni og stuðningi við bann við hvalveiðum í atvinnuskyni.
Auk Marris flytja 10 samflokksmenn tillöguna en þeir eru: Syd Rapson þingmaður kjördæmisins Portsmouth suður, Jeremy Corbyn frá Islington norður, Joan Humble frá Blackpool norður og Fleetwood, Keith Bradley frá Manchester Withington, Mark Lazarowicz frá Edinborg norður og Leith, Kevin McNamara frá Kingston upon Hull norður, Alice Mahon frá Halifax, Albert Owen frá Ynos Mon, Harry Barnes, þingmaður norðaustur Derbyskíris og Tony Banks frá West Ham.
Þingmennirnir þrír úr Frjálslynda demókrataflokknum sem undir hana skrifa eru Adrian Sanders frá kjördæminu Torbay, Bob Russell frá Colchester og Mike Hancock frá Portsmouth South.
Eini Íhaldsflokksþingmaðurinn sem á aðild að þingsályktuninni er Peter Bottomley þingmaður Worthing vestur.