Í morgun kom mb. Gestur að hrefnuveiðibátnum Nirði KÓ þar sem verið var að draga nýskutlaða hrefnu um borð á Faxaflóa. Að sögn Ásbjörns Björgvinssonar, formanns Hvalasloðunarsamtaka Íslands er þetta á svæði þar sem hvalaskoðunarbátar sigla um með ferðamenn. en þetta væri utan þess svæðis sem Hafró teldi hefðbundin skoðunarsvæði. Gísli Víkingsson, sem stjórnar hvalarannsóknum Hafrannsóknarstofnunar segir hins vegar að báturinn hafi verið utan þess svæðis sem Hafró teldi hefðbundin hvalaskoðunarsvæði.
Áhöfnin á Gesti tók hnitin, 64,13 N og 22,39 V, sem að sögn Ásbjörns er klárlega inni á hvalaskoðunarsvæði. Áhöfnin á Gesti hafði þegar samband við hvalaskoðunarbátinn Hafsúluna sem átti um mílu eftir að staðnum með sextán fulltrúa frá erlendum ferðaskrifstofum sem voru í kynningarferð, en þeir eru hér í tengslum við VestNorden ráðstefnuna í Færeyjum. Hafsúlunni var þegar snúið frá, að sögn Ásbjörns, sem segir að þessi uppákoma sé fyrir neðan allar hellur.
„Þetta er klárlega á því svæði sem hvalaskoðunarbátarnir hafa verið að sigla með farþega og þess vegna brýtur þetta öll loforð sem var búið að gefa okkur. Þá var tekið fram að ákveðið svæði yrði virt þar sem hrefnurnar fengju að vera í friði og reyndar var sagt fyrst að hrefnuveiðibátarnir myndu halda tíu mílna radíus í hvalaskoðunarsvæðin.“
Að sögn Ásbjörns reyndi áhöfn Njarðar að veiða á hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa fyrr í mánuðinum og þá var málið tekið fyrir á vinnufundi í sjávarútvegsráðuneytinu og því lofað að slíkt atvik myndi ekki koma fyrir aftur.
„Þannig að það er þungt hljóðið í okkur hvalaskoðunarmönnum,“ segir Ásbjörn. „Þetta er fyrir neðan allar hellur og sannar að hvalaskoðun og -veiðar geta ekki farið saman.“
„Vel utan hvalaskoðunarsvæða“
Að sögn Gísla Víkingssonar hjá Hafrannsóknastofnuninni staðfesti leiðangursstjóri Hafró um borði í Nirði KÓ að staðsetningin stæðist en þetta væri utan þess svæðis sem Hafró teldi hefðbundin skoðunarsvæði.
„Málið er að það eru engar ákveðnar línur sem eitthvert samkomulag er um,“ segir Gísli, „þannig að þetta er spurning um skilgreiningu, hvort taka eigi ystu punkta sem hvalaskoðunarbátarnir hafa farið á. Við miðum meira við svæði þar sem bátarnir eru í reglulegum ferðum og þetta er vel utan þess.“
Að sögn Gísla er þetta spurning um skilgreiningu á svæðinu. „Það var aldrei neitt formlegt samkomulag un neinar slíkar línur,“ segir hann, „það kom til tals en við töldum það ekki vera í okkar valdi fyrir þessa tímabundnu rannsókn að setja slíkur línur sem hefðu seinna e.t.v. fordæmisgildi þegar og ef hefðbundnar veiðar hefjast.“