Alls hafa 24 hrefnur verið veiddar samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunarinnar um vísindaveiðar. Takmarkið er að veiða 38 dýr og segir Sunna Viðarsdóttir hjá Hafró að ætlunin sé að veiðunum ljúki um næstu mánaðamót. Verði veður skaplegt sé útlit fyrir að dýrin náist á þeim tíma.
Að sögn Sunnu var bræla á miðum í gær og hún ekkert heyrt í hrefnuveiðibátunum frá í fyrradag, en þá veiddi Njörður KÓ síðustu hrefnuna sem veiðst hefur. Var það sjötta hrefnan sem Njörður nær. Halldór Sigurðsson ÍS hefur veidd flest dýrin eða 10 og Sigurbjörg BA átta. Veiðarnar hófust fyrir mánuði.
Flaggskip Greenpeace-samtakanna, Rainbow Warrior, hefur verið hér við land undanfarið í þeim tilgangi að reka áróður gegn vísindaveiðunum og að Íslendingar hefji yfirleitt aftur hvalveiðar í vísindaskyni. Samkvæmt frétt sem birtist á heimasíðu samtakanna í gær hafa þeir ekki farið bónleiðir til búðar.
„Nærvera okkar á Íslandi er farin að snúa almenningsálitinu á þessari eyju í Norður-Atlantshafi. Íslenska ríkisstjórnin er nú að endurskoða svonefnda „vísindaveiðiáætlun" sína og forsætisráðherrann gaf nýverið til kynna að hvalveiðar Íslendinga myndu leggjast af fyndist ekki markaður fyrir afurðirnar."
Þannig hljómar upphaf fréttarinnar sem er undir fyrirsögninni „Ísland: Hvalveiðiþjóð í dag, en hversu lengi?" Og bætt er við í undirfyrirsögn að skoðanakönnun sýni þverrandi stuðning við hvalveiðar.
„Til viðbótar leggja nú lykilmenn að ríkisstjórninni að taka tilboði okkar um að hvetja fólk til ferðalaga til Íslands sem umhverfisvæns áfangastaðar í framtíðinni er hvalveiðum hefur veirð hætt. Ríkisútvarpið gerði könnun á vefsvæði sínu og spurði hvort mönnum fyndist taka bæri tilboði Greenpeace. Þegar könnuninni lauk höfðu 71% svarað játandi," segir einnig í fréttinni.
Vitnað er til þess að Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi í samtali við Kyodo-fréttastofuna 10. september sl. sagt að hvalveiðar í atvinnuskyni yrðu háðar því að Japanir keyptu kjötið því eftirspurn eftir því heima fyrir væri „afar lítil".
Frode Pleym, talsmaður Greenpeace, segir að þessi játning forsætisráðherrans tákni að „íslenska ríkisstjórnin kunni allt eins að leggja öll hvalveiðiáform á hilluna því aldrei muni verða af nokkrum útflutningi til Japans. Alþjóðleg viðbrögð og, og kaldhæðni örlaganna eða eiturefni í hvalkjöti, muni koma í veg fyrir það," segir á heimasíðu Greenpeace.