Hafrannsóknastofnunin segir í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér að það hafi verið staðfastur vilji stofnunarinnar og starfsmanna hennar að haga hrefnuveiðum og rannsóknum þannig að þær yllu ekki ónæði eða árekstrum við hvalaskoðunarskip. Sl. mánudag gagnrýndi formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands Hafrannsóknastofnunina og hrefnuveiðimenn í fjölmiðlum vegna meints yfirgangs þeirra í garð hvalaskoðunarbáta.
Yfirlýsing stofnunarinnar er eftirfarandi:
„Vegna ummæla í fjölmiðlum um meint skeytingarleysi starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar um ferðir hvalaskoðunarskipa á Faxaflóa, mánudaginn 15. september og tilkynningar Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, vill stofnunin taka fram eftirfarandi:
Allt frá því að rannsóknaveiðarnar hófust í ágúst s.l. hefur það verið staðfastur vilji Hafrannsóknastofnunarinnar og starfsmanna hennar að haga hrefnuveiðum og rannsóknum með tilliti til ferða hvalaskoðunarbáta þannig að þær yllu ekki ónæði eða árekstrum. Af því tilefni voru leiðangursstjórum veiðiskipanna gefin þau fyrirmæli að halda sig fyrir utan reglubundin hvalaskoðunarsvæði og að leiðangursmenn gerðu sér far um að afla upplýsinga um ferðir hvalaskoðunarskipa. Þessu hefur verið nákvæmlega fylgt eftir, en þó skal í þessu sambandi upplýst að því miður hefur rekstraraðili hvalaskoðunarbátsins Hafsúlunnar KE og Gests KE ekki sýnt áhuga á slíku samráði.
Það skal hins vegar upplýst að Gestur KE, sem um nokkurt skeið hefur fylgt eftir hrefnuveiðibátnum Nirði KÓ með kvikmyndatökumenn óþekktra aðila um borð langt út fyrir hvalaskoðunarslóð, kom á vettvang þegar hrefnan var tekin að síðu skips. Svo virðist sem þar séu á ferðinni aðilar sem hafi það ætlunarverk að ná myndum af því er hrefnan er aflífuð. Ef rétt er, hlýtur það að orka tvímælis að hagsmunaaðili sem telur sig geta orðið fyrir skaða af völdum áróðurs gegn veiðum, standi að slíku.
Hafrannsóknastofnunin telur að ummæli hvalaskoðunaraðila í fjölmiðlum gefi ranga mynd af staðreyndum málsins. Ljóst er að sú hrefna sem veidd var um borð í Nirði KÓ um 20 sjómílur frá Gróttu, var utan venjubundinnar leiðar Hafsúlunnar. Jafnframt skal það upplýst að skipverjar og leiðangursstjóri stofnunarinnar um borð í Nirði telja útilokað að Hafsúlan hafi verið í námunda við skipið þegar á veiði stóð, enda aðgæsla vegna ferða skipa í nágrenninu forgangsmál hjá áhöfninni af öryggisástæðum. Af staðfestum upplýsingum skipa í nágrenni Hafsúlunnar á þeirri stundu sem hrefnan var veidd, var skipið fjarri veiðistað á umræddum tíma.
Sem fyrr mun Hafrannsóknastofnunin standa svo að þessum rannsóknum, að sem minnst truflun verði af. Um það vill hún hafa gott samstarf við hlutaðeigandi aðila.“