Norsk stjórnvöld gáfu í gær út hrefnuveiðikvóta fyrir næsta ár og verður heimilt að veiða 670 dýr, sem er minna en í fyrra. Í Noregi er talið að veiðarnar muni að mestu fara fram án vandkvæða enda fari andstaða við þær minnkandi á alþjóðavettvangi.
Kvótinn fyrir þetta ár er 711 dýr. Samtals hafa veiðst 647 hrefnur það sem af er árinu. Norðmenn einir þjóða veiða hrefnur í hagnaðarskyni en Íslendingar og Japanar veiða þær í vísindaskyni.
Karsten Klepsvik, talsmaður norska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten að greinilegt væri að andstaða við hvalveiðar Norðmanna færi minnkandi á alþjóðavettvangi. Hann telur að þolinmæði Norðmanna og stefnufesta sé að skila árangri. "Ég tel að minni andstöðu við veiðarnar sé einkum að rekja til þess að við höfum ávallt stutt málflutning okkar vísindalegum rökum." Rune Frøvik, talsmaður hagsmunasamtaka hvalveiðimanna í Norður-Noregi, tók í sama streng. "Hvalveiðar vekja ekki sömu athygli og fyrr og andstaðan er ekki jafnkröftug og áður," sagði hann og bætti við að erlendir blaðamenn sem til Noregs kæmu til að kynna sér nýtingu á þessum stofnum skiluðu nú mun betri greinum en áður. Erlendir blaðamenn væru nú jafnvel tilbúnir að bragða á hvalkjöti og væri það mikil breyting.