Tvær ferðaskrifstofur, Arctic Experience í Bretlandi og Katla Travel í Þýskalandi, hafa sett á laggirnar upplýsingavef, þar sem birt er umfjöllun þýskra og breskra fjölmiðla um hvalveiðar Íslendinga. Í tilkynningu frá ferðaskrifstofunum segir, að markmið vefjarins sé að hann nýtist þeim sem vilji fylgjast með viðbrögðum umheimsins við þessum umdeildu veiðum.
Ferðaskrifstofurnar segjast báðar hafa mótmælt hvalveiðum Íslendinga opinberlega á efnahagslegum rökum, en um 20 þúsund ferðamenn koma árlega til Íslands á vegum þeirra. Telja skrifstofurnar að með hvalveiðunum sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni, þar sem veiðarnar hafi neikvæð áhrif á ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og að þær muni draga úr ásókn ferðamanna til landsins.
Í tilkynningu skrifstofanna segir, að þær greinar, sem birtast á vefnum, endurspegli ekki viðhorf fyrirtækjanna til hvalveiða, enda sé hlutverk vefjarins einungis að miðla upplýsingum sem endurspegli afstöðu umheimsins til þessara umdeildu veiða.