Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ræddi við George W. Bush Bandaríkjaforseta um stöðu varnarmála Íslands er þeir hittust í boði í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. "Ég fór í móttöku hjá Bush Bandaríkjaforseta í gær (þriðjudag) og hann gaf sér góðan tíma til að tala við mig. Við ræddum um varnarmálin og af því samtali er ljóst að hann mun halda áfram að fylgjast með málinu og gerir sér grein fyrir viðkvæmni þess," segir Halldór í samtali við Morgunblaðið.
Halldór hefur einnig rætt við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Elizabeth Jones, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneytinu, sem kom hingað til lands til viðræðna við íslensk stjórnvöld í sumar. "Það liggur fyrir eftir þau samtöl að þetta mál er í eðlilegum farvegi. Það mun taka nokkurn tíma að fjalla um þessi mál og alveg ljóst að Bandaríkjamenn vilja ná niðurstöðu sem er viðunandi fyrir báða aðila. Ég er viss um það að málið mun verða unnið í vinsamlegu andrúmslofti á grundvelli gagnkvæmrar virðingar en ekki með einhliða hætti eins og við vorum afskaplega ósáttir við," sagði Halldór.
Hann sagði forsetann fyrst og fremst vilja ná niðurstöðu sem væri byggð á gagnkvæmni. Halldór segir það einnig hafa komið skýrt fram í samtölum við Powell og Jones að forsetinn sé áhugasamur um málið og að fyrir liggi skýr pólitískur vilji af forsetans hálfu að leysa það.
Utanríkisráðherra sagði ekkert enn liggja frekar fyrir um efnisatriði málsins og það væri ljóst að menn væru ekkert að flýta sér neitt sérstaklega. "Það eru að hefjast viðræður um varnarviðbúnað almennt í Evrópu. Ég á von á að mál er varða Ísland muni tengjast því.
Halldór segist telja að málið muni taka nokkurn tíma. "Ég sé ekki fyrir mér niðurstöðu í þessu máli fyrr en einhvern tímann á næsta ári."