Sprengioddurinn í skutli Njarðar sprakk ekki þegar báturinn var á hrefnuveiðum vestan við land í gær. Skutullinn hæfði hrefnu og drapst dýrið við höggið þótt sprengjan spryngi ekki. Að ráði sprengideildar Landhelgisgæslunnar var ákveðið að sigla til hafnar í Ólafsvík.
Hafnarsvæðinu var lokað í smástund í gærkvöldi, á meðan starfsmenn Landhelgisgæslunnar tóku sprengioddinn upp úr bátnum og röntgenskoðuðu hann. Síðan var hann sprengdur í sandbing utan við bæinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var talið að eitthvað hefði gengið til í sprengjuhleðslunni.