Alls höfðu 36 hrefnur verið veiddar samkvæmt rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunar í gær en þá lauk jafnframt veiðunum. Síðustu hrefnuna veiddi hvalveiðibáturinn Halldór Sigurðsson í gærkvöldi. Ekki tókst að veiða síðustu tvær hrefnurnar sem þurfti til viðbótar til að fylla kvótann.
"Við vorum reyndar mjög meðvituð um þetta þegar við ákváðum að hefja veiðar að við værum hugsanlega mjög tæpir á að ná þessu og hugsanlega myndi vanta nokkur dýr," segir Gísli Víkingsson, verkefnastjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Stefnt var að því upphaflega að veiða 38 hrefnur.
Að sögn Gísla er framundan að afla upplýsinga úr sýnum sem tekin voru af dýrunum, það sé heilmikil vinna og ekki að vænta niðurstaðna fyrr en með vorinu. Sú vinna dreifist á margar stofnanir auk Hafrannsóknastofnunar. Til dæmis fara mengunarmælingar á vefjum hvalsins fram á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins en þær eru hluti af heilsufarsþætti rannsóknarinnar. Þá taka dýralæknar frá Keldum og læknir frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi, sem stundað hefur hormónarannsóknir á hvölum, þátt í rannsókninni.
Miðað er við að áfangaskýrslu um rannsóknina verði skilað til Alþjóðahvalveiðiráðsins í vor. Að sögn Gísla er hugsanlegt að mjög fljótlega verði birtar upplýsingar um samsetningu aflans.