Breski sjávarútvegsráðherrann Ben Bradshaw segist ekki verðskulda þá útnefningu að vera „hataðasti maðurinn á Íslandi" vegna andstöðu sinnar við vísindaveiðar Íslendinga á hrefnu. Segir hann blaðamenn hafa slitið orð sín úr samhengi.
„Hann kann að þykja stórlax á Isleworth-vegi, Iolanthe-tröð og Ivy-braut en þegar Ísland er annars vegar finnst mönnum lítið til Exeeter-þingmannsins Ben Bradshaw koma. Staðreyndin er sú að maður sem gengur undir nafninu „herra fiskur" í Bretlandi vegna hlutverks síns sem sjávarútvegsráðherra er haturstákn á litlu, gosöskueynni í kaldranalegum jaðri Norður-Atlantshafsins".
Þannig segir á fréttavef Exeter-blaðsins Express & Echo á Netinu. Þar er grein frá því að hvalavinurinn Bradshaw hafi komið sér í klandur á Íslandi fyrir að dirfast að halda því fram að það væri rangt af hálfu Íslendinga að hefja hvalveiðar á ný.
„Ef það var ekki nógu slæmt þá fóru fregnir af því að Bradshaw hafi lagt til að Bretar færu ekki í frí til Reykjavíkur og keyptu sér ekki íslenskar vörur eins og... hraunstyttur og óvenjulega hluti sem gerðir eru úr fiskibeinum," segir í fréttinni.
Bætt er við að Bradshaw neiti harðlega að hafa viðhaft slík ummæli en hann hviki þó ekki frá andstöðu sinni við hvalveiðar. „Ég er ekki í uppáhaldi á Íslandi sem stendur vegna fordæmingar minnar á því að þeir skuli taka aftur til við hvalveiðar. Um það hefur verið skrifað í öll blöðin þar. Ég komst að því að ég væri óvinur þeirra númer eitt er kunningi minn í Reykjavík sendi mér úrklippur úr dagblöðunum.
Þar á meðal voru alls kyns teiknimyndir og greinar þar sem ég var skammaður fyrir hvað ég hafði sagt um hvalveiðistefnu þeirra," segir Bradshaw við heimablað sitt. Og ítrekar að það sé með öllu óréttlætanlegt að veiðar séu nauðsynlegar til að afla gagna um hversu mikinn fisk hvalir éti.
„Ég hvatti ekki Breta til að sniðganga íslenskar vörur eða ferðaþjónustu því það er í raun ólögmætt - það var ranglega eftir mér haft eða það sem ég sagði misskilið," segir Bradshaw.