Nokkuð er um það að hvalfriðunarsinnar eyðileggi veggspjöld sem Flugleiðir hafa látið setja upp á lestarstöðvum í Lundúnum þar sem ferðir til Íslands eru auglýstar.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að um víðtæka auglýsingaherferð sé að ræða sem hafi hafist um miðjan september og standi yfir fram í miðja nóvember. Um sé að ræða nokkrar mismunandi útgáfur af veggspjöldum sem komið sé upp á 700 stöðum í öllum neðanjarðarlestastövunum í Lundúnum. Herferðin hafi gengið mjög vel og Flugleiðir hafi fengið mikil og góð viðbrögð við henni.
Hins vegar hafi verið nokkur dæmi þess að hvalfriðunarsinnar hafi skemmt eitthvað af vegspjöldum. Það sé aftur á móti erfitt að fá yfirsýn yfir hvað það sé mikið um þetta, þar sem að veggspjöldin séu hreinsuð og skipt út af starfsfólki lestarstöðvanna jafnóðum og þetta gerist.
"Við þekkjum allnokkur dæmi um að hvalfriðunarsinnar hafi verið að koma svona skilaboðum á framfæri, en það er ekki hægt að hafa yfirsýn yfir það hvað það er mikið," sagði Guðjón.
Hann sagði að andstæðingar hvalveiða væru mjög áberandi í Bretlandi og notuðu flest tækifæri sem gæfust til þess að koma málstaðnum á framfæri. Þeir yrðu áþreifanlega varir við það í sínu markaðsstarfi. Skrifstofur þeirra í Bretlandi og víðar fengju mikið af orðsendingum og tölvupósti þessa efnis. Þá væri mikið fjallað um hvaðveiðarnar í bandarískum fjölmiðlum. Þannig væri hann með undir höndum þykka möppu með úrklippum úr bandarískum blöðum þar sem umfjöllunarefnið væri hvalveiðar Íslendinga.
Aðspurður hvort þeir teldu hættu á að hvalveiðarnar sköðuðu íslenska ferðaþjónustu sagði Guðjón að þeir hefðu áhyggjur af þeim áhrifum sem hvalveiðarnar hefðu í þeim efnum.