Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sagði á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag, að hann tryði því ekki, að þeir sem teldu sig bæra til að byggja upp ímynd Íslands í útlöndum, hefðu horft fram hjá þeirri staðreynd, að á landinu byggi þjóð sem leggði áherslu á að stundaðar væru hvalveiðar. „Ef þeir hafa gert það þá hefur verið dregin upp fölsk mynd. Við erum þjóð sem byggir afkomu sína á því að auðlindir sjávar séu nýttar með sjálfbærum hætti og er þá hvalurinn ekki undanskilinn," sagði Árni.
Hann vísaði til þess, að Alþingi hefði tekið þá ákvörðun, með stuðningi mikils meirihluta allra flokka, um að hvalveiðar skyldu hafnar hið fyrsta. Jafnframt hafi komið fram í skoðanakönnunum að 75% þjóðarinnar séu fylgjandi veiðunum. Það sé því ljóst að bæði samkvæmt vilja Alþingis og könnunum meðal þjóðarinnar á Íslandi búi þjóð sem leggur áherslu á að hér séu stundaðar hvalveiðar.
Árni sagðist velta þessu upp, vegna þess að sér þætti umræðan í kringum hvalveiðarnar oft á tíðum full slagorðakennd. Það sé ekki trúverðugt að gefa í skyn að enginn hafi átt von á því að Íslendingar hæfu vísindaveiðar eftir allt sem á undan sé gengið. Það verði að horfa til þess hver sé vilji þjóðarinnar og stefna stjórnvalda.
„Við megum því alls ekki líta á það sem hlutverk okkar að aðstoða öfgahópa við að sverta Ísland. Rödd öfgahópa er ekki jafn hávær og áður. Þeir hafa misst trúverðugleika í ljósi þess að hafa orðið uppvísir að blekkingum og misnotkun á fé. Því er fólk farið að taka áróðri þeirra með mun meiri varúð en áður var. Það er því fyrst og fremst þegar við erum farin að stunda sjálfsgagnrýni á þeirra forsendum að áróðurinn fer að bíta," sagði Árni.