Sjávarútvegráðherra: Á Íslandi býr þjóð sem vill stunda hvalveiðar

Árni M. Mat­hiesen, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, sagði á aðal­fundi Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna í dag, að hann tryði því ekki, að þeir sem teldu sig bæra til að byggja upp ímynd Íslands í út­lönd­um, hefðu horft fram hjá þeirri staðreynd, að á land­inu byggi þjóð sem leggði áherslu á að stundaðar væru hval­veiðar. „Ef þeir hafa gert það þá hef­ur verið dreg­in upp fölsk mynd. Við erum þjóð sem bygg­ir af­komu sína á því að auðlind­ir sjáv­ar séu nýtt­ar með sjálf­bær­um hætti og er þá hval­ur­inn ekki und­an­skil­inn," sagði Árni.

Hann vísaði til þess, að Alþingi hefði tekið þá ákvörðun, með stuðningi mik­ils meiri­hluta allra flokka, um að hval­veiðar skyldu hafn­ar hið fyrsta. Jafn­framt hafi komið fram í skoðana­könn­un­um að 75% þjóðar­inn­ar séu fylgj­andi veiðunum. Það sé því ljóst að bæði sam­kvæmt vilja Alþing­is og könn­un­um meðal þjóðar­inn­ar á Íslandi búi þjóð sem legg­ur áherslu á að hér séu stundaðar hval­veiðar.

Árni sagðist velta þessu upp, vegna þess að sér þætti umræðan í kring­um hval­veiðarn­ar oft á tíðum full slag­orðakennd. Það sé ekki trú­verðugt að gefa í skyn að eng­inn hafi átt von á því að Íslend­ing­ar hæfu vís­inda­veiðar eft­ir allt sem á und­an sé gengið. Það verði að horfa til þess hver sé vilji þjóðar­inn­ar og stefna stjórn­valda.

„Við meg­um því alls ekki líta á það sem hlut­verk okk­ar að aðstoða öfga­hópa við að sverta Ísland. Rödd öfga­hópa er ekki jafn há­vær og áður. Þeir hafa misst trú­verðug­leika í ljósi þess að hafa orðið upp­vís­ir að blekk­ing­um og mis­notk­un á fé. Því er fólk farið að taka áróðri þeirra með mun meiri varúð en áður var. Það er því fyrst og fremst þegar við erum far­in að stunda sjálfs­gagn­rýni á þeirra for­send­um að áróður­inn fer að bíta," sagði Árni.

mbl.is