Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau gagnrýna ummæli Árna Matthiesen, sjávarútvegsráðherra, í ræðu hans á aðalfundi LÍÚ í gær. Segja samtökin að ummæli Árna hafi verið ómálefnaleg þgar hann talaði um öfgahópa sem hefðu misst trúverðugleika í ljósi þess að hefðu orðið uppvísir að blekkingum og misnotkun á fé. Árni hafi ekki nefnt hvaða samtök hann átti við.
Náttúruverndarsamtök Íslands segja að hér heima hafi gagnrýni á hrefnuveiðar í vísindaskyni einkum komið frá aðilum í ferðaþjónustu, ekki náttúruverndarsamtökum. Erlendis frá hafi gagnrýni á hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra ekki síður komið frá ríkisstjórnum Bandaríkjanna, Bretlands, Svíþjóðar eða Þýskalands en umhverfisverndarsamtökum.
„Þessir sleggjudómar sjávarútvegsráðherra eru ekki boðlegir í þeirri umræðu sem lýðræðislegt þjóðfélag þrífst á. Umræða um umhverfismál eru þar síst undanskilin og framlag umhverfisverndarsamtaka til þeirrar umræðu er mikilvægt. Þess hafa íslensk stjórnvöld notið vel á alþjóðavettvangi í viðleitni sinni við að vernda lífríki sjávar á gegn mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna sem ógna lífríki sjávar á norðurslóðum," segir í tilkynningu Náttúruverndarsamtaka Íslands.