Japanskir vísindamenn hafa uppgötvað áður óþekkta hvalategund og þakka vísindahvalveiðum Japana fund sinn; segja að án þeirra hefðu þeir aldrei gert þessa uppgötvun. Um er að ræða dýr sem skylt þykir steypireyð og hefur skepnan fengið latneska heitið Balaenoptera omurai.
Skýrt er frá niðurstöðunni í nýjasta hefti náttúrufræðiritsins Nature en þar segir að erfðaefni hinnar 12 metra löngu skepnu og beinabygging hennar - einkum höfuðkúpan - sé frábrugðin öðrum skíðishvelum þótt mikill skyldleiki sé með henni og steypireyð. Þá eru skíðin færri.
Uppgötvunina gerðu sérfræðingar við fiskveiðirannsóknastofnunina í Yokohama í Japan með rannsóknum á erfðaefni svonefndra Skorureyða en ágreiningur hefur verið um hvort þar sé jafnvel um að ræða fleiri tegund en eina.
Japönsku vísindamennirnir halda því nú fram að þær séu ekki tvær heldur þrjár; Skorureyður, Edens-hvalur og nýja tegundin, omurai. Rannsóknir þeirra á hval sem rak á land 1998 á eynni Tsunoshima - og sýnum úr hvölum sem veiddir voru fyrir 30 árum - hafi leitt það í ljós.
„Án vísindaveiðanna hefðum við aldrei gert þessa uppgötvun," segir forsprakki vísindamannanna við fiskveiðirannsóknastofnunina í Yokohama.