Skoskir Grænfriðungar hvetja nú félaga í samtökunum til að láta fé af hendi rakna til herferðar gegn hrefnuveiðum, að því er kemur fram á fréttavef skoska blaðsins Glasgow Daily Record. Þar segir að umhverfisverndarsamtökin þurfi á fé að halda til að kaupa nýjan útbúnað, svo hægt verði að grípa til aðgerða gegn veiðum á hrefnu í Atlantshafi.
Blaðið segir, að Íslendingar hafi reitt umhverfisverndarsinna til reiði með því að veiða 36 hrefnur í vísindaskyni í haust og áformi að veiða 250 til viðbótar á næsta ári.
Fram hefur komið hjá íslenskum stjórnvöldum að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort frekari hrefnuveiðar verði á næsta ári.