Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, upplýsti við upphaf þingfundar í dag, að eftir að vinna hófst í samgönguráðuneytinu við skýrslu, sem Mörður Árnason alþingismaður óskaði eftir um áhrif vísindahvalveiða á síðasta ári á ímynd landsins sem ferðamannalands, hafi komið í ljós að könnunin yrði mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari en ráð var gert fyrir.
Sagði Sturla, að ekki væri líklegt að könnunin gæfi rétta mynd nema hún næði til stærri hóps og yfir lengri tíma en upphaflega var ráð fyrir gert. Sagðist Sturla hafa viljað gera þinginu grein fyrir þessu frekar en skila inn skýrslu, sem ekki gæfi nema hluta þeirra upplýsinga sem farið var fram á.
Mörður og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar lögðu áherslu á að umræddar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin um hvort framhald verði á hvalveiðum. Sagði Mörður að þessi vinna hefði átt að vera hluti þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hefja hvalveiðar á sínum tíma.
Sturla benti á að í skýrslubeiðninni hefði verið farið fram á að lagt verði mat á þær hvalveiðar sem fóru fram á síðasta ári. Þá sagði Sturla ljóst, að innan ferðaþjónustunnar lægi fyrir að menn vildu helst vera lausir við þau áhrif sem hvalveiðar kynnu að hafa.