Tap af rekstri hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi nam hátt í 90 milljónum króna á árunum 1999 til 2002 á verðlagi hvers árs og var tapið mest á árunum 2002 og 2001. Mörg þessara hvalaskoðunarfyrirtækja virðast vera illa stödd fjárhagslega með lítið eða í mörgum tilvikum neikvætt eigið fé. Samanlagðar skuldir hvalaskoðunarfyrirtækjanna, einnig á verðlagi hvers árs, jukust úr liðlega 105 milljónum króna í tæpar 307 milljónir króna frá 1999 til 2002 en samanlagt eigið fé þeirra var 34,4 milljónir í lok árs 2002.
Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi sem Kristján Loftsson flutti á málþingi Stafnbúa í opnu húsi Háskólans á Akureyri í gær og sagði hann forvitnilegt að vita hvernig staðan væri eftir árið í fyrra og ljóst að staða þessarar greinar væri ekki ýkja beysin.
Mest var tapið hjá Eldingu, eða tæpar 38 milljónir á umræddu tímabili, og var eigið fé hennar neikvætt um 39 milljónir í árslok 2002.
Kristján benti einnig á að í skýrslu fjármálaráðherra vegna fyrirspurnar á Alþingi kæmi fram að Hvalamiðstöðin hafi fengið 7,4 milljónir í styrk árið 2002 og Norðursigling hafi fengið fimm milljóna króna ríkisstyrk árið 2002 til þess að styrkja reksturinn, eins og það hafi verið orðað. Samtals hafi styrkir til þessara fyrirtækja numið 14,3 milljónum árið 2002.