Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir vegna yfirlýsingar frá Norður-Siglingu, sem birtist í gær, að ef ekki hefði komið til ríkisstyrkur hefði Norður-Sigling verið með 11% eiginfjárhlutfall árið 2002. Fram kom í yfirlýsingu Norður-Siglingar að félagið hafi undanfarin ár verið rekið með hagnaði og eiginfjárstaðan sé traust.
Kristján Loftsson segir að árið 2002 hafi hagnaður af rekstri Norður-Siglingar verið 773.258 krónur en hafa beri í huga að félagið fékk styrk frá menntmálaráðuneytinu sem hljóðaði upp á 5 milljónir til að styrkja reksturinn, eins og segi í svari fjármálaráðherra á Alþingi 4. febrúar 2004 vegna fyrirspurnar Brynju Magnúsdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar um fjárframlög ríkissjóðs til ferðaþjónustu árin 2002 og 2003. Segir Kristján að ef þessa styrks hefði ekki notið við árið 2002, þá hefði rekstur Norður-Siglingar komið út með tapi upp á rúmar 4 milljónir króna. Eigið fé Norður-Siglingar hefði veikst um sömu upphæð eða um tæplega helming.
„Ef ofannefndur styrkur hefði ekki komið til þá hefði eiginfjárhlutfall Norður-Siglingar ehf. lækkað úr um 19% í um 11%. Í fyrirtækjarekstri telst 11% eiginfjárhlutfall ekki ýkja traust," segir Kristján Loftsson.