Hrefnu- og langreyðarstofnar við Ísland taldir hafa náð fyrri stærð

Vísindanefnd NAMMCO telur óhætt að veiða 200 hrefnur hér við …
Vísindanefnd NAMMCO telur óhætt að veiða 200 hrefnur hér við land án þess að það hafi áhrif á stofninn. AP

Vís­inda­nefnd Norður-Atlants­hafs­sjáv­ar­spen­dýr­aráðsins (NAMMCO) tel­ur að hrefnu og langreyðar­stofn­ar við Ísland séu nú ná­lægt eða bún­ar að ná þeirri stofn­stærð sem var áður en skipu­leg­ar veiðar hóf­ust. Tel­ur vís­inda­nefnd­in óhætt að veiða 200 hrefn­ur og 150 langreyðar við Ísland án þess að þess­ir hvala­stofn­ar beri af því skaða. Á fund­in­um var einnig lýst áhyggj­um af út­sels­stofn­in­um við Ísland og mælt með því að Íslend­ing­ar setji skýr mark­mið um stofn­stærð.

Að sögn Gísla Vík­ings­son­ar, hvala­sér­fræðings hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, bygg­ir nýtt mat á stofn­stærð hrefnu og langreyðar við Ísland á upp­lýs­ing­um frá hvala­taln­ingu sem fór fram árið 2001. Þannig er nú áætlað að Mið-Atlants­hafs­hrefnu­stofn­inn við Ísland telji nú um 44 þúsund dýr og að í svo­nefnd­um Aust­ur-Græn­lands-Íslands langreyðar­stofni séu um 25 þúsund dýr.

Á NAMMCO-fund­in­um var lýst yfir áhyggj­um af stöðu ná­hvals við Vest­ur-Græn­land og kom fram sú skoðun að draga yrði veru­lega úr veiðum á ná­hval til að vernda stofn­inn. Fram kom að Græn­lend­ing­ar hefðu ný­lega gripið til aðgerða til að vernda ná­hval og mjald­ur við vest­ur­hluta Græn­lands.

Þá kom fram á fund­in­um að út­sels­stofn­inn við Ísland hefði farið minnk­andi síðustu 10 ár og var mælt með því að Ísland setti skýr mark­mið um viðhald stofns­ins. Tölu­vert hef­ur verið veitt úr þess­um stofni hér við land en eng­inn ákveðinn veiðikvóti hef­ur verið gef­inn út. Þá taldi NAMMCO að veiðikvót­ar á út­sel í Nor­egi kynnu að vera of háir, þótt ekki væri veitt upp í þá kvóta. Var einnig mælt með því að Norðmenn settu mark­mið um stofn­stærð.

Að NAMMCO eiga aðild Íslend­ing­ar, Norðmenn, Fær­ey­ing­ar og Græn­lend­ing­ar en full­trú­ar frá Kan­ada, Dan­mörk, Jap­an og Rússlandi sóttu einnig fund­inn í Þórs­höfn sem áheyrn­ar­fulltú­ar.

mbl.is