Heimildarmyndagerðarmaðurinn sir David Attenborough segir að ógerningur sé að drepa hvali á mannúðlegan hátt þegar skutull er notaður til þess, að því er segir í frétt Guardian. Þá efast hann um að siðmenntaðar þjóðir eigi að umbera hvalveiðar, að því er kemur fram í skýrslu vísindamanna og þekktra dýraverndarsamtaka. Fram til þessa hefur Attenborough gætt þess að taka ekki afstöðu til mismunandi stjórnmála- og dýraverndunarskoðana en í skýrslunni Troubled Waters lætur hann andstöðu sína við hvalveiðar klárlega í ljós.
Andstæðingar hvalveiða hafa einkum einblínt á það hvort unnt sé að drepa hval á mannúðlegan hátt. Þeir segja að ef það sé ekki unnt, þá ættu Bretar ekki að taka upp hvalveiðar á ný.
Skýrslan leiðir í ljós að ekki er unnt að tryggja að skepnan drepist samstundis og þó svo að hvalir drepist að jafnaði tveimur mínútum eftir að skutullinn hæfir þá, þá lifi margir hvalir lengur. Sumir hljóta sár og óvíst er um örlög þeirra.
Í formála skýrslunnar segir Attenborough: „Hvalir eru háþróuð dýr og afar næm. Félagslíf þeirra er flókið. Þeir kalla á hvern annan um langan veg í sjónum. Þeir eru stærstu skepnur sem nokkru sinni hafa verið á jörðinni, mun stærri en nokkur risaeðla. Það er ekkert í hvalskrokknum sem við nýtum sem við getum ekki fundið annars staðar.“ Þá segir Attenborough að í skýrslunni sé að finna beinharðar og vísindalegar sannanir fyrir því að ekki sé unnt að drepa hval á sjó á mannúðlegan hátt.