Hrefnuveiðar Norðmanna hófust í vikunni og í morgun var búið að skjóta sjö hrefnur í Norðursjó. Alls verður leyft að skjóta 670 hrefnur við Noreg í ár. Japanar hefja vísindaveiðar á hrefnu í Suðurhöfum 13. þessa mánaðar. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort hrefnuveiðar verði við Ísland í ár en í fyrra var gefinn út hrefnuveiðikvóti vegna vísindarannsókna.
Fram kemur á fréttavefnum Skipum.is í dag, að Norðmenn hafi ákveðið að lágmarksmverð á hrefnukjöti verði 29 norskar krónur á kíló en það samsvarar um 313 íslenskum krónum.
Veiðikvótanum er er deilt á svæði frá Norðursjó og norður eftir norsku lögsögunni og einnig á Jan Mayen- og Svalbarðasvæðinu. 33 skip eru skráð til veiðanna. Dregið hefur verið úr kvótanum í Barentshafi en aukinn kvóti er í boði á Jan Mayensvæðinu.