Japanar hafa óskað eftir því að alþjóðastofnunin, sem hefur eftirlit með viðskiptum um afurðir af dýrategundum í útrýmingarhættu, aflétti að hluta til banni á viðskipti með hvalaafurðir með því að leyfa takmörkuð viðskipti með hrefnuafurðir. Árið 1983 ákvað stofnunin að lýsa alla hvalastofna í útrýmingarhættu.
Sáttmálinn um alþjóðlega verslun með tegundir í útrýmingarhættu (CITES) segir í yfirlýsingu að Japanar hafi óskað eftir því að þrír hrefnustofnar verði teknir af lista yfir dýr sem njóta algerrar verndar og færðir á lista yfir dýrastofna þar sem leyfð eru takmörkuð viðskipti með afurðir samkvæmt útgefnum leyfum.
Japanar hættu hvalveiðum í atvinnuskyni árið 1988 en þeir mótmæltu ekki hvalveiðibanni Alþjóða hvalveiðiráðsins. Þeir hafa hins vegar stundað vísindaveiðar á hrefnu allt frá 1987.
Ársfundur CITES verður haldinn í október á Taílandi og þá er venjulega farið yfir reglur og flokkanir stofnunarinnar. Sáttmálinn nær yfir um 5 þúsund dýrategundir og 28 þúsund jurtategundir.
Japanar segja í bréfi sínu til CITES að hvalveiðiráðið hafi aldrei lagt fram vísindaleg rök fyrir hvalveiðibanni sínu. Þess vegna sé mjög mikilvægt að CITES styðji tillögu Japana til að sýna fram á að stofnunin byggi ákvarðanir sínar á vísindalegum grunni en ekki á pólitískum ástæðum.