Árni Mathiesen segir að fljótlega muni framhald vísindahvalveiðanna skýrast. Til stóð að hann tilkynnti um framhaldið á morgunverðarfundi Sjávarnytja á miðvikudag, en það varð ekki úr. "Maður þarf að vanda sig vel í þessu máli," sagði ráðherra spurður um hvenær hann muni tilkynna um framhald veiðanna.
Vísindaveiðarnar hófust um miðjan ágústmánuð síðasta sumar. Þá voru 36 dýr veidd og tekið af þeim kvóta sem gefinn hafði verið upp fyrir veiðarnar fyrir ágúst og september. Til stendur að veiða alls 200 dýr, á mismunandi svæðum í kringum landið, á tímabilinu maí til september, til að skoða fæðu, ástand skepnunnar og fleira á mismunandi tímabilum.
Árni segir að hvalveiðimenn hafi sagt að þeir séu til þegar kallið komi og því þurfi ekki að tilkynna um veiðarnar með miklum fyrirvara.