Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, segir ennþá stefnt að því að veiða 200 hrefnur, líkt og gert er ráð fyrir í hvalarannsóknaáætlun stofnunarinnar. Aftur á móti sé nú ljóst að þetta markmið náist ekki á tveimur árum, eins og að var stefnt í upphafi, heldur á lengra tímabili.
Jóhann segir að breytingum á upphaflegri hvalarannsóknaáætlun fylgi bæði kostir og gallar í rannsóknalegu tilliti. "Sýnatakan í ár mun taka skemmri tíma en við ætluðum. Auðvitað hefði verið hagkvæmara að veiða fleiri dýr í sumar en við teljum þetta viðunandi fjölda ef heildarfjöldinn verður sá sami og kveðið er á um í áætluninni. Við sjáum fram á að við munum veiða þessi dýr á helmingi lengri tíma en upphaflega var ætlað. Við erum fyrst og fremst að afla upplýsinga um fæðuval á mismunandi svæðum og með því að dreifa veiðinni yfir lengri tíma sjáum við betur breytileika á milli ára."
Jóhann segir að veiðarnar hefjist við fyrsta tækifæri og framkvæmd þeirra verði með svipuðu sniði og á síðasta ári.
Hann segir að áætlun um veiðar og rannsóknir á langreyði og sandreyði standist sömuleiðis, þó að veiðarnar á þessum tegundum hefjist ekki í sumar. Ennþá sé miðað við að veiddar verði 200 langreyðar og 100 sandreyðar en engin ákvörðun liggi fyrir um hvenær þessar veiðar hefjast.