Í gær veiddist fyrsta hrefnan samkvæmt rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir árið 2004. Að því er kemur fram á vef Hafró var það Njörður KÓ, einn af þremur hrefnuveiðibátum, sem Hafrannsóknastofnunin hefur nú til umráða vegna rannsóknanna, sem veiddi hrefnuna í utanverðum Faxaflóa.
Alls verða veidd 25 dýr í rannsóknaskyni í sumar og verður veiðunum dreift í samræmi við upphaflega rannsóknaáætlun. Meginmarkmið rannsóknanna er að afla grunnupplýsinga um fæðuvistfræði hrefnunnar á landgrunni Íslands. Þó mikilvægi hrefnu í vistkerfi hafsins við Ísland sé ljóst, hefur skortur á nákvæmum fæðuupplýsingum torveldað áætlanir um afrán hennar á öðrum nytjastofnum. Auk fæðurannsóknanna eru gerðar fjölþættar aðrar rannsóknir á hverri veiddri hrefnu.
Ásamt Hafrannsóknastofnuninni koma vísindamenn frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Landspítala-háskólasjúkrahúsi o.fl. aðilum að rannsóknunum. Þá verða samkvæmt áætluninni einnig gerðar margþættar rannsóknir óháðar veiðum, svo sem talningar á mismunandi tímum árs.
Athygli er vakin á nýjum upplýsingavef Hafrannsóknastofnunarinnar vegna hrefnurannsóknanna en þar munu upplýsingar um gang rannsóknanna og niðurstöður birtast auk ítarlegra upplýsinga um sögu hrefnurannsókna og veiða, eðli og stöðu yfirstandandi verkefnis.