Fimm hrefnur hafa nú veiðst síðan rannsóknaveiðar hófust aftur í byrjun júní. Gísli Víkingsson, verkefnisstjóri, segir á vefsvæði Hafrannsóknastofnunar að rannsóknirnar gangi samkvæmt áætlun en alls má veiða 25 hrefnur í sumar. Veiðunum er dreift á 9 hafsvæði allt í kringum landið í samræmi við útbreiðslu hrefnu við landið og fara þær fram á þremur bátum sem leigðir voru til rannsóknanna.
Gísli segir úrvinnslu gagna úr sýnatökum á síðasta ári ganga vel og verða frumniðurstöður afmarkaðra rannsóknarþátta lagðar fram á ársfundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins í júlí. Samkvæmt rannsóknaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar á að veiða alls 200 dýr og eiga endanlegar niðurstöður að liggja fyrir að lokinni úrvinnslu allra sýna.
Verkefnið er unnið í samvinnu sérfræðinga á Hafrannsóknastofnuninni, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Landspítala Háskólaskjúkrahúsi.