Vísindaveiðum á hrefnu er lokið í ár og hrefnurnar 25 sem ákveðið var að veiða komnar á land, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni. Alls hafa því verið tekin sýni úr 61 hrefnu og margvíslegar mælingar gerðar frá því rannsóknirnar hófust í ágúst 2003.
Úrvinnsla gagna er hafin og verður greint frá gangi rannsóknanna á ársfundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem nú stendur yfir í Sorrento á Ítalíu.
Þrír bátar voru leigðir til veiðanna í ár, Njörður KÓ, Halldór Sigurðsson ÍS og Trausti ÍS og voru veiðar stundaðar allt í kringum landið. Veiðunum var dreift í hlutfalli við útbreiðslu hrefnu hér við land að sumarlagi.
Upplýsingavefur Hafrannsóknarstofnunarinnar um hrefnurannsóknir