Daninn Hendrik Fischer, formaður Alþjóða hvalveiðiráðsins, mun leggja til að banni við hvalveiðum verði aflétt á ársfundi ráðsins, sem hefst í Sorrento á Ítalíu á morgun. Í trúnaðarskjali, sem dreift hefur verið til fulltrúa á ársfundinum, segir Fischer að nauðsynlegt sé að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju til að endurreisa trúverðugleika ráðsins og gera því kleift að tryggja verndun og viðhald hvalastofnanna.
Í skjalinu, sem Fischer hefur dreift til aðildarríkja hvalveiðiráðsins, segir að áætlun hans sé besta leiðin til að ná jafnvægi milli hógværra veiðikvóta og verndunar en deilur um það hafa í rúman áratug komið í veg fyrir niðurstöðu um svonefndar endurskoðaðar veiðireglur, sem eru forsenda fyrir því að veiðikvótar verði gefnir út að nýju.
„Nú er almennt talið, að samtök okkar séu ekki starfhæf og raunar vinna andstæðar skoðanir og aðgerðir, sem nú eru í ráðinu, gegn verndun," segir Fischer í skjalinu. Þar segir hann að það eigi að vera hægt að leyfa einverjar veiðar ekki síðar en árið 2006. Segist hann telja, að rétt sé að heimila hvalveiðar í þrepum til að auka trú almennings á að Alþjóðahvalveiðiráðið sé fært um að stjórna hvalveiðum og tryggja verndun hvalastofna.
„Með þessu er ekki verið að gefa í skyn... að það verði hafnar umfangsmiklar veiðar á öllum hvalastofnum," segir Fishcer og bætir við að á fyrsta fimm ára tímabilinu eigi aðeins að leyfa aðildarríkjum að veiða innan eigin efnahagslögsögu.
Hvalveiðibann hefur verið í gildi frá árinu 1986. Norðmenn mótmæltu banninu á sínum tíma og eru því ekki bundnir af því en hrefnuveiðar hafa verið stundaðar við strendur Noregs um árabil. Þá hafa Japanar og Íslendingar lagt stund á hrefnuveiðar í vísindaskyni.
Japanar hafa hótað að ganga úr hvalveiðiráðinu og stofna eigin veiðistjórnunarsamtök verði hvalveiðibanninu ekki aflétt. Japanska sendinefndin sagði í síðustu viku að hvalveiðiráðið væri algerlega óstarfhæft. Meirihluti aðildarríkjanna telur hins vegar að hvalveiðiráðið sé besti vettvangurinn til að vernda hvalastofna, einkum þá sem séu enn í útrýmingarhættu.
Japanar taka vel í hugmyndir Fischers. Talsmaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundinum sagði við AFP að þetta sé í fyrsta skipti sem komið hafi fram raunhæfar tillögur sem miði í rétta átt. Hvalveiðiráðið hafi í raun aldrei komist nálægt því að ná samkomulagi.
Til að aflétta hvalveiðibanninu þarf 3/4 hluta atkvæða á ársfundi og ólíklegt er að það náist á fundinum í Sorrento þar sem aðildarríkin virðast skipt í tvær nánast jafn stórar fylkingar. Hins vegar er talið að skjal Fischers muni gefa Japönum byr undir báða vængi.