Japanar og fleiri ríki á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins hafa brugðist ókvæða við ásökunum frá náttúruverndarsamtökum um að Japan hafi keypt sér atkvæði Kyrrahafsríkja í ráðinu með því að heita þeim þróunaraðstoð. Krefjast Japanar þess að samtökunum Alþjóðlega dýraverndarsjóðnum (IFAW) verði vísað af fundinum en samtökin ásamt fleiri slíkum samtökum hafa áheyrnaraðild að ráðinu.
Roland Schmitten, starfandi formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, hefur kallað eftir því að IFAW leggi fram sannanir fyrir þessum ásökunum, að sögn heimildarmanna innan hvalveiðiráðsins. Fleiri samtök, á borð við Grænfriðunga og Alþjóða náttúruverndarsjóðinn (WWF), komu fram með svipaðar ásakanir í gær á sameiginlegum blaðamannafundi náttúruverndarsamtaka í Sorrento á Ítalíu þar sem ársfundurinn er haldinn.
Schmitten kallaði formenn aðildarríkja ráðsins saman í gær þar sem fulltrúar Japana og Kyrrahafsríkja báru af sér sakir. Sögðu nokkrir sendifulltrúar að þessar ásakanir væru afar móðgandi og lögðu hart að Schmitten að vísa fulltrúum IFAW af fundinum. Mun Schmitten væntanlega boða til annars fundar formanna sendinefndanna og kynna þar ákvörðun sína.