Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu, sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi Íslendinga og Japana fyrir áform um að auka hvalveiðar í vísindaskyni og hvatti þjóðirnar til að hætta slíkum veiðum. Sagði Campbell að Íslendingar og Japanar ætluðu vísindi sem yfirskyn fyrir veiðar á 850 hvölum af ýmsum tegundum á næsta ári, að því er kemur fram í frétt Reutersfréttastofunnar. Ástralir hættu hvalveiðum fyrir aldarfjórðungi.
„Það er móðgun við vísindi að drepa hvali í nafni vísinda," sagði Campbell. „Þetta eru ekki vísindi. Þetta er slátrun í atvinnuskyni."
Ástralar vilja að komið verði á fót griðasvæði hvala í Suður-Kyrrahafi og að bann, sem nú er í gildi við hvalveiðum í atvinnuskyni verði varanlegt.
Campbell tók við embætti umhverfisráðherra í byrjun vikunnar en fyrirrennari hans, David Kemp, var vikið úr embætti eftir að hann lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram í næstu þingkosningum. Verkamannaflokkurinn, helsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, gagnrýndi Campbell í vikunni fyrir að sækja ekki fund Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento á Ítalíu en formaður áströlsku sendinefndarinnar er Conall O'Connell, aðstoðarráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins.
Ástralir og Nýsjálendingar eru í hópi þeirra þjóða sem beitt hafa sér mest gegn hvalveiðum. Segja þær að hvalastofnar séu við hættumörk og griðasvæði séu nauðsynleg svo stofnarnir geti náð sér á ný. Tvö slík svæði eru nú skilgreind, á Indlandshafi og í Suðurhöfum.