Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í morgun var rætt um tillögu Nýja-Sjálands sem vill að veiðiaðferðir við hvalveiðar verði mannúðlegri en nú er. „Þrátt fyrir að hvalveiðibann sé í gildi halda nokkrar þjóðir - Japan, Noregur og Ísland, áfram að veiða þúsundir hvala á ári. Aðferðirnar sem notaðar eru við þessar hvalveiðar eru oft mjög hrottafengnar," sagði Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, þegar hann mælti fyrir tillögunni. Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagði að Íslendingar væru hlynntir því að bæta veiðiaðferðir en hins vegar virtist sem umhyggja þeirra ríkja sem lögðu tillöguna fram væri meiri fyrir hvölum en öðrum veiðidýrum.
„Geti Alþjóðahvalveiðiráðið ekki stöðvað hvalveiðar þá ætti það að minnsta kosti að reyna að betrumbæta drápsaðferðirnar til að draga sem mest úr þjáningu þeirra hvala sem veiddir eru," sagði Carter.
Carter sagði að í tillögunni fælist ekki afstöðubreyting Nýsjálendinga til hvalveiða heldur væri einfaldlega verið að viðurkenna að enn séu stundaðar hvalveiðar.
Tillaga Nýja-Sjálands var studd af Bretlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki, Argentínu, Suður-Afríku, Mexíkó, Hollandi, Belgíu, Brasilíu, Portúgal, Indlandi, Spáni, Svíþjóð og Bandaríkjunum.
Íslendingar, Norðmenn og Japanar lýstu sig andvígir tillögunni í morgun og sögðu að mikið hefði verið unnið að því að gera hvalveiðar eins mannúðlegar og mögulegt væri og þær væru oft mun mannúðlegri en veiðar á dýrum á þurru landi. Aðallega eru notaðir sprengjuskutlar við hvalveiðar en einnig stórir rifflar og handskutlar til að festa flotholt við hvalina. „Þessar aðferðir leiða oft til þess að hvalirnir eru lengi að drepast og særðir hvalir sleppa stundum," sagði Carter. Hann sagði að í nýrri skýrslu kæmi fram að það tæki að jafnaði um 14 mínútur að deyða hrefnu undan Grænlandi og 114 mínútur að drepa langreyði. Þá séu dæmi um að hvalir hafi verið allt að 12 stundir að drepast.
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagði að Íslendingar væru hlynntir því að bæta veiðiaðferðir en hins vegar virtist, sem umhyggja almennings í löndunum sem lögðu tillöguna fram væri meiri fyrir hvölum en dýrum sem þar eru veidd. Hann sagði að Svíar viðurkenndu t.d. að veiðaðferðir við hvalveiðar séu í mörgum tilfellum mun árangursríkari en þær sem notaðar eru við elgsveiðar í Svíþjóð.
„Ég tel að við ættum að viðurkenna þýðingu þess háttar samanburðar en einblína ekki á hvalveiðar og fullyrða að þar fari fram einhvers konar óviðurkvæmilegar aðgerðir á sama tíma og við sættum okkur við að önnur dýr séu veidd með aðferðum sem eru mun áhrifaminni," sagði Stefán á fundinum.
Dýraverndarsamtök segja að hvalir deyi ekki nægilega skjótt eftir að þeir hafa verið skotnir. Sir David Attenborough, sem kunnur er fyrir sjónvarpsþætti sína um náttúruna, sagði nýlega í skýrslu, að ekki væri til nein mannúðleg aðferð til að drepa hval í sjó.
En norski hvalveiðimaðurinn Bjorn Hugo Bendiksen segir, að sannað hafi verið að hvalveiðar séu sennilega skilvirkustu dýraveiðar sem nú séu stundaðar. Þróun veiðiaðferðanna sé komin svo langt, að erfitt sé að bæta þær. „Þessum ríkjum er nákvæmlega sama um dýravernd og mannúðlegar veiðiaðferðir. Þær vilja bara koma í veg fyrir hvalveiðar - punktur."