Andstæðingum hvalveiða tókst að koma í veg fyrir að samþykkt yrði ályktun á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem gerði ráð fyrir því að endurskoðaðar veiðistjórnunarreglur um hvalveiðar verði afgreiddar á næsta ársfundi ráðsins. Ástralar og Nýsjálendingar lögðu fram breytingartillögu, sem var samþykkt, um að fleiri kæmu að vinnu við veiðistjórnunarreglur en starfshópur, sem myndaður var eftir ársfund ráðsins í fyrra og Ísland á m.a. sæti í. Er m.a. gert ráð fyrir aðkomu umhverfisverndarsamtaka. Þá er því ekki lýst yfir að vinnu við reglurnar skuli vera lokið á næsta ári þótt að því skuli stefnt.
„Þetta þýðir að stigið er skref í átt til þess að hvalveiðar í atvinnuskyni verði leyfðar á ný en það er lítið skref," sagði Susan Lieberman, einn af talsmönnum World Wildlife Fund (WWF).
Fulltrúar Japana lýstu vonbrigðum með niðurstöðu ársfundarins. Minoru Morimoto, formaður japönsku sendinefndarinnar, sagði að úrslitin ykju efasemdir Japana um að Alþjóðahvalveiðiráðið hafi nokkra þýðingu fyrir Japana. „Hins vegar eru Japanar reiðubúnir til að vinna að því að hvalveiðar verði teknar upp að nýju í samræmi við raunhæfar veiðistjórnunarreglur," sagði hann.
Bandaríkin sættu fyrr í dag mikilli gagnrýni fyrir að lýsa stuðningi við ályktun sem lögð var fram af Japan og Íslandi og miðaði að því að ljúka vinnu við svonefndar endurskoðaðar veiðistjórnunarreglur. Hvalveiðiþjóðir segja að þegar þær reglur verði staðfestar þýði það sjálfkrafa að hvalveiðibanninu verði aflétt, en William Hogarth, formaður bandarísku sendinefndarinnar, sagðist ekki vera samþykkur því og sagði að Bandaríkin styddu ekki afnám hvalveiðibannsins.