Bandaríkin segjast ekki hafa breytt um hvalveiðistefnu

Frá ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento.
Frá ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento. AP

William Hog­ar­th, formaður banda­rísku sendi­nefnd­ar­inn­ar á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins í Sor­rento á Ítal­íu, seg­ir að Banda­rík­in hafi ekki breytt um stefnu og séu en al­farið á móti hval­veiðum þótt þau styðji álykt­un um að stefnt verði að því að svo­nefnd­ar end­ur­skoðaðar veiðistjórn­un­ar­regl­ur verði samþykkt­ar á fundi ráðsins á næsta ári. Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök og nokk­ur aðild­ar­ríki hval­veiðiráðsins hafa brugðist óvæða við álykt­un­inni sem til stend­ur að af­greiða á fund­in­um síðdeg­is. Nýja-Sjá­land, Ástr­al­ía, Bras­il­ía og fleiri þjóðir vilja að álykt­un­inni verði breytt eða önn­ur samþykkt.

„Þetta er ekki stefnu­breyt­ing af hálfu Banda­ríkj­anna," sagði Hog­ar­th við AP frétta­stof­una. „Banda­rík­in eru al­farið and­víg hval­veiðum í at­vinnu­skyni... En það er afstaða rík­is­stjórn­ar Banda­ríkj­anna, að við þurf­um að hafa góðar veiðistjórn­un­ar­regl­ur í gildi."

Henrik Fischer, formaður hval­veiðiráðsins, lagði á fundi ráðsins fram áætl­un sem ger­ir ráð fyr­ir því að hval­veiðar geti haf­ist að nýju í áföng­um og und­ir ströngu eft­ir­liti. For­senda fyr­ir því sé að veiðistjórn­un­ar­regl­urn­ar verði samþykkt­ar. Um­hverf­is­vernd­arsinn­ar ótt­ast því að álykt­un­in, sem ræða á síðdeg­is, sé fyrsta skrefið í átt­ina til þess að hval­veiðibann­inu verði aflétt en Hog­ar­th sagði það ekki vera rétt og samþykkt veiðistjórn­un­ar­reglna muni ekki sjálf­krafa leiða til þess að hval­veiðar verði heim­ilaðar á ný.

Hog­ar­th sagði að lík­leg yrðu færri hval­ir veidd­ir ef góðar regl­ur væru í gildi um veiðistjórn­un, frek­ar en ef eng­ar regl­ur væru í gildi. Mik­il­vægt væri að hval­veiðiráðið væri starf­hæft og hval­veiðiþjóðir tækju til­lit til þess. „Þess­ar alþjóðlegu stofn­an­ir eru afar mik­il­væg­ar," sagði hann og bætti við að vinna við veiðistjórn­un­ar­regl­urn­ar hafi staðið yfir í rúm­an ára­tug. Banda­rík­in væru að reyna að þoka þessu verki áfram. „Við erum í þessu ráði og okk­ur finnst að við verðum að vinna að því að ráðið upp­fylli skyld­ur sín­ar," sagði hann.

Í álykt­un­ar­til­lög­unni, sem m.a. er lögð fram af Íslend­ing­um, Norðmönn­um, Japön­um og Banda­ríkja­mönn­um, seg­ir að ef ekki ná­ist breið samstaða um veiðistjórn­un­ar­regl­ur muni það draga stór­lega úr mögu­leik­um hval­veiðiráðsins að upp­fylla þær skyld­ur sín­ar að vernda hvala­stofna og stýra veiðum úr þeim með ábyrg­um hætti.

mbl.is