William Hogarth, formaður bandarísku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento á Ítalíu, segir að Bandaríkin hafi ekki breytt um stefnu og séu en alfarið á móti hvalveiðum þótt þau styðji ályktun um að stefnt verði að því að svonefndar endurskoðaðar veiðistjórnunarreglur verði samþykktar á fundi ráðsins á næsta ári. Náttúruverndarsamtök og nokkur aðildarríki hvalveiðiráðsins hafa brugðist óvæða við ályktuninni sem til stendur að afgreiða á fundinum síðdegis. Nýja-Sjáland, Ástralía, Brasilía og fleiri þjóðir vilja að ályktuninni verði breytt eða önnur samþykkt.
„Þetta er ekki stefnubreyting af hálfu Bandaríkjanna," sagði Hogarth við AP fréttastofuna. „Bandaríkin eru alfarið andvíg hvalveiðum í atvinnuskyni... En það er afstaða ríkisstjórnar Bandaríkjanna, að við þurfum að hafa góðar veiðistjórnunarreglur í gildi."
Henrik Fischer, formaður hvalveiðiráðsins, lagði á fundi ráðsins fram áætlun sem gerir ráð fyrir því að hvalveiðar geti hafist að nýju í áföngum og undir ströngu eftirliti. Forsenda fyrir því sé að veiðistjórnunarreglurnar verði samþykktar. Umhverfisverndarsinnar óttast því að ályktunin, sem ræða á síðdegis, sé fyrsta skrefið í áttina til þess að hvalveiðibanninu verði aflétt en Hogarth sagði það ekki vera rétt og samþykkt veiðistjórnunarreglna muni ekki sjálfkrafa leiða til þess að hvalveiðar verði heimilaðar á ný.
Hogarth sagði að líkleg yrðu færri hvalir veiddir ef góðar reglur væru í gildi um veiðistjórnun, frekar en ef engar reglur væru í gildi. Mikilvægt væri að hvalveiðiráðið væri starfhæft og hvalveiðiþjóðir tækju tillit til þess. „Þessar alþjóðlegu stofnanir eru afar mikilvægar," sagði hann og bætti við að vinna við veiðistjórnunarreglurnar hafi staðið yfir í rúman áratug. Bandaríkin væru að reyna að þoka þessu verki áfram. „Við erum í þessu ráði og okkur finnst að við verðum að vinna að því að ráðið uppfylli skyldur sínar," sagði hann.
Í ályktunartillögunni, sem m.a. er lögð fram af Íslendingum, Norðmönnum, Japönum og Bandaríkjamönnum, segir að ef ekki náist breið samstaða um veiðistjórnunarreglur muni það draga stórlega úr möguleikum hvalveiðiráðsins að uppfylla þær skyldur sínar að vernda hvalastofna og stýra veiðum úr þeim með ábyrgum hætti.