Bandaríkjamenn hafa ásamt Íslandi, Noregi og Japan lagt fram ályktunartillögu á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem hvatt er til þess að vinnu við svonefnda endurskoðaða veiðistjórnunaráætlun ljúki á næsta ársfundi ráðsins í Pusan í Suður-Kóreu. Með þessu er tekið undir tillögur Henriks Fischers, formanns ráðsins sem kynntar voru í upphafi ársfundarins en Fischer hvatti til þess að vinnu við veiðistjórnunaráætlunina ljúki og í kjölfarið verði hægt að hefja hvalveiðar undir ströngu eftirliti og í áföngum. Ýmsar þjóðir, sem hafa lengi verið andvígar hvalveiðum, svo sem Spánverjar, Svisslendingar, Írar, Suður-Kóreumenn og Hollendingar, eru einnig meðflutningsmenn að tillögunni sem verður væntanlega samþykkt á lokadegi fundar ráðsins í Sorrento í dag.
Í tillögunni segir m.a. að náist ekki breið samstaða um veiðistjórnunarreglurnar muni það draga úr getu Alþjóðahvalveiðiráðsins til að uppfylla skyldur sínar við að tryggja verndun hvalastofna og ábyrga stjórnun hvalveiða. Vinna við þessar veiðistjórnunarreglur hefur staðið yfir í áratug og til þessa hefur ráðið m.a. sagt að ekki sé hægt að aflétta hvalveiðibanninu fyrr en þeirri vinnu sé lokið. Verði veiðistjórnunaráætlunin samþykkt verður erfitt fyrir hvalveiðiráðið að rökstyðja þörf fyrir áframhaldandi hvalveiðibann.
Náttúruverndarsamtök gagnrýndu afstöðu Bandaríkjanna harðlega í gærkvöldi. „Þetta er alvarlegasta málið sem við höfum staðið frammi fyrir frá því hvalveiðibannið var sett árið 1986," sagði Patricia Forkan, talsmaður bandarísku Mannúðarsamtakanna.
Forkan sagði á blaðamannafundi að ályktunin yrði væntanlega samþykkt í dag. „Það yrði í fyrsta skipti sem hvalveiðiþjóðir fá meirihlutastuðning í ráðinu. Ég hélt ekki, að ég ætti eftir að sitja hér og fylgjast með því þegar hvalveiðar yrðu leyfðar á ný."
Bandaríkin hafa lengi verið í fararbroddi þeirra ríkja sem barist hafa gegn hvalveiðum þótt inúítar í Alaska fái jafnan að veiða hvali í samræmi við reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins um frumbyggjakvóta.
Í yfirlýsingu frá regnhlífasamtökum náttúruverndarsamtaka segir, að mikill meirihluti bandarískra borgara sé andvígur því að hvalveiðar í atvinnuskyni séu teknar upp að nýju. „Bandaríska ríkisstjórnin er því greinilega úr takt við þjóð sína og við hljótum að velta ástæðunni fyrir okkur."