Bandaríkin styðja tillögu um að hvalveiðar geti hafist á ný

Frá ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento á Ítalíu. Fundinum lýkur í …
Frá ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Sorrento á Ítalíu. Fundinum lýkur í dag. AP

Banda­ríkja­menn hafa ásamt Íslandi, Nor­egi og Jap­an lagt fram álykt­un­ar­til­lögu á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins þar sem hvatt er til þess að vinnu við svo­nefnda end­ur­skoðaða veiðistjórn­un­ar­áætl­un ljúki á næsta árs­fundi ráðsins í Pus­an í Suður-Kór­eu. Með þessu er tekið und­ir til­lög­ur Henriks Fischers, for­manns ráðsins sem kynnt­ar voru í upp­hafi árs­fund­ar­ins en Fischer hvatti til þess að vinnu við veiðistjórn­un­ar­áætl­un­ina ljúki og í kjöl­farið verði hægt að hefja hval­veiðar und­ir ströngu eft­ir­liti og í áföng­um. Ýmsar þjóðir, sem hafa lengi verið and­víg­ar hval­veiðum, svo sem Spán­verj­ar, Sviss­lend­ing­ar, Írar, Suður-Kór­eu­menn og Hol­lend­ing­ar, eru einnig meðflutn­ings­menn að til­lög­unni sem verður vænt­an­lega samþykkt á loka­degi fund­ar ráðsins í Sor­rento í dag.

Í til­lög­unni seg­ir m.a. að ná­ist ekki breið samstaða um veiðistjórn­un­ar­regl­urn­ar muni það draga úr getu Alþjóðahval­veiðiráðsins til að upp­fylla skyld­ur sín­ar við að tryggja vernd­un hvala­stofna og ábyrga stjórn­un hval­veiða. Vinna við þess­ar veiðistjórn­un­ar­regl­ur hef­ur staðið yfir í ára­tug og til þessa hef­ur ráðið m.a. sagt að ekki sé hægt að aflétta hval­veiðibann­inu fyrr en þeirri vinnu sé lokið. Verði veiðistjórn­un­ar­áætl­un­in samþykkt verður erfitt fyr­ir hval­veiðiráðið að rök­styðja þörf fyr­ir áfram­hald­andi hval­veiðibann.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök gagn­rýndu af­stöðu Banda­ríkj­anna harðlega í gær­kvöldi. „Þetta er al­var­leg­asta málið sem við höf­um staðið frammi fyr­ir frá því hval­veiðibannið var sett árið 1986," sagði Pat­ricia Forkan, talsmaður banda­rísku Mannúðarsam­tak­anna.

Forkan sagði á blaðamanna­fundi að álykt­un­in yrði vænt­an­lega samþykkt í dag. „Það yrði í fyrsta skipti sem hval­veiðiþjóðir fá meiri­hlutastuðning í ráðinu. Ég hélt ekki, að ég ætti eft­ir að sitja hér og fylgj­ast með því þegar hval­veiðar yrðu leyfðar á ný."

Banda­rík­in hafa lengi verið í far­ar­broddi þeirra ríkja sem bar­ist hafa gegn hval­veiðum þótt inúít­ar í Alaska fái jafn­an að veiða hvali í sam­ræmi við regl­ur Alþjóðahval­veiðiráðsins um frum­byggja­kvóta.

Í yf­ir­lýs­ingu frá regn­hlíf­a­sam­tök­um nátt­úru­vernd­ar­sam­taka seg­ir, að mik­ill meiri­hluti banda­rískra borg­ara sé and­víg­ur því að hval­veiðar í at­vinnu­skyni séu tekn­ar upp að nýju. „Banda­ríska rík­is­stjórn­in er því greini­lega úr takt við þjóð sína og við hljót­um að velta ástæðunni fyr­ir okk­ur."

mbl.is