Andstæðingar hvalveiða hafa komið fram með hugmyndir um að breyta stofnsamningi Alþjóða hvalveiðiráðsins m.a. þannig að hann banni veiðar í vísindaskyni og afnemi rétt aðildarríkja til að mótmæla ákvörðunum ráðsins. Þetta kom fram á fundi í ráðinu í Svíþjóð í síðustu viku, en þar lögðu Bretar, Ástralir og Nýsjálendingar fram tillögu þessa efnis.
Þessi fundur var eins konar vinnufundur, þar sem engar beinar ákvarðanir voru teknar, heldur var verið að fara yfir framkomnar tillögur um framhaldið í deilunni um hið svonefnda endurskoðaða stjórnkerfi hvalveiða í atvinnuskyni og móta þær frekar. Næsti fundur af þessu tagi verður í marz og verður þá reynt að móta endanlegar tillögur til að leggja fyrir ársfund ráðsins næsta sumar.
Stefán Ásmundsson, formaður íslenzku sendinefndarinnar, segir að ljóst sé að þessar þrjár þjóðir séu algerlega andvígar hvalveiðum óháð því hvort ljóst sé að þær séu sjálfbærar eða ekki. Það sé hins vegar afar ólíklegt að þessi hugmynd um breytingar á stofnsamningi hvalveiðiráðsins geti orðið að veruleika. Breytingar á stofnsamningnum þurfi að fara fyrir þjóðþing sérhverrar aðildarþjóðar og hljóta þar samþykki. Þær þjóðir sem samþykki breytingarnar ekki séu ekki bundnar af þeim og því sé afar ólíklegt að reynt verði að fara þessa leið, enda væri hvalveiðiráðið orðin yfirþjóðleg valdastofnun ef mótmælarétturinn væri afnuminn.
Stefán segir að formaður Alþjóða hvalveiðiráðsins hafi á síðasta ársfundi lagt fram tillögu sem byggist á því að takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni verði leyfðar. Samkvæmt henni verði veiðikvótar reiknaðir út frá þeirri reiknireglu sem vísindanefnd ráðsins samþykkti fyrir meira en áratug, sem tryggir sjálfbærni veiðanna.
"Það liggja ýmsar tillögur fyrir ráðinu, sem verið er að vinna úr áður en þær verða lagðar fullmótaðar fyrir næsta ársfund. Þar á meðal verður tillaga formannsins um takmarkaðar veiðar. Hvaða fleiri tillögur verða lagðar fyrir ársfundinn liggur ekki fyrir enn, en það er ljóst að Ástralar, Bretar og Nýsjálendingar munu ekki samþykkja veiðar. Það á einnig við um fleiri þjóðir, en þeim þjóðum sem eru fylgjandi sjálfbærum veiðum undir ströngu eftirliti fer fjölgandi," segir Stefán.