Norsk stjórnvöld hafa aukið við hrefnukvóta, sem norskir hrefnuveiðimenn fá úthlutað fyrir næsta ár. Verður kvótinn 797 dýr á næsta ári en var 670 á yfirstandandi ári. Ekki tókst að veiða upp í kvótann nú, m.a. vegna þess að eftirspurn eftir kjöti er takmörkuð í Noregi.
„Þetta er stærsti kvóti sem hefur verið ákveðinn frá því hvalveiðar hófust að nýju árið 1993," sagði Sven Ludvigsen, sjávarútvegsráðherra, í yfirlýsingu.
Norðmenn eru eina þjóðin sem veiðir hvali í atvinnuskyni, en þeir mótmæltu hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins á sínum tíma og eru því ekki bundnir af því. Japanar og Íslendingar hafa stundað hvalveiðar í vísindaskyni.