Umhverfisverndarsinnar á vegum Grænfriðunga hafa lagt undir sig svæði í Ulsan í Suður-Kóreu þar sem hugmyndir eru um að reisa vinnslustöð fyrir hvalkjöt en vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins situr nú á fundi í Ulsan. Ársfundur ráðsins verður einnig í Ulsan og hefst 20. júní.
Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, óttast umhverfisverndarsinnar, að á ársfundinum muni ráðið leggja blessun sína yfir takmarkaðar hvalveiðar að nýju.
Á fundinum í Ulsan verða endurskoðaðar veiðireglur enn og aftur til umfjöllunar en á fundi hvalveiðiráðsins í fyrra var ákveðið að leggja áherslu á að ljúka umfjöllun um reglurnar sem fyrst.