Mikið áróðursstríð fer nú fram í aðdraganda ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hefst í Suður-Kóreu 20. þessa mánaðar. Ríki, sem andvíg eru hvalveiðum, hafa með Ástralíu í broddi fylkingar gagnrýnt harðlega áform Japana um að auka vísindaveiðar á hvölum. Í gær snérist Norðurhjarabandalagið, samtök hvalveiðimanna á norðurslóðum, til varnar og sagði að Ástralar hefðu ekki úr háum söðli að detta í umhverfismálum þar sem þeir hefðu neitað að staðfesta Kyoto-sáttmálann.
Ástralar og fleiri ríki vilja að komið sé í veg fyrir að aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðins geti stundað hvalveiðar í vísindaskyni. Hefur Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu, m.a. verið á ferð um Evrópu til að afla stuðnings við þessar tillögur, að sögn ástralskra fjölmiðla.
Í gær sagði Rune Frovik, talsmaður Norðurhjarabandalagsins, við ABC útvarpsstöðina í Ástralíu, að staða umhverfismála þar í landi og andstaða Ástrala við Kyoto-sáttmálann um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda, gerði það að verkum að málflutningur Ástrala væri ekki trúverðugur.
„Það kemur ekki til greina að stöðva hvalveiðar. Það eina, sem Ástralía getur reynt, er að reyna að takmarka veiðarnar. Ástralar eiga að taka upp viðræður við hvalveiðiþjóðirnar um málamiðlun," sagði Frovik.
Campbell svaraði í morgun og sagði að sig undraði ekki, að ákveðin ríki reyndu að grafa undan tilraunum Ástrala til að koma í veg fyrir hvalveiðar. Hann sagði að afstaða Ástralíu til Kyoto-sáttmálans veikti ekki stöðu landsins í umhverfismálum.
„Við erum forusturíki að mörgu leyti á þessu sviði, og það var við því að búast að fulltrúar norskra hvalveiðihagsmunasamtaka reyni að gera málið persónulegt og ráðast á Ástralíu," sagði hann við Sky News.
„Flestir telja að hvalveiðar eigi að heyra fortíðinni til og því eigi að stöðva þær. Þeir sem veiða hvali og græða á að eyða hvölum - sprengja þá í loft upp með handsprengjum - það er eðlilegt að þeir reyni að verja sína hagsmuni."
Campbell kom í gær úr ferð til Solomoneyja, Kiribati og Tonga þar sem hann var að afla stuðnings við tilraunir til að koma í veg fyrir að Japanar tvöfölduðu vísindaveiðikvóta sinn. Campbell sagði að Solomoneyjar hefðu heitið honum stuðningi á ársfundi hvalveiðiráðsins og það væri mikilvægt atriði í ljósi þess að mjótt yrði á mununum.
„Og viðræður mínar í Evrópu voru einnig afar gagnlegar, afar uppbyggilegar og mun uppbyggilegri en bullið sem við heyrðum frá norsku hvalveiðihagsmunavörðunum," sagði hann.