Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) segist hvorki svartsýnn né bjartsýnn á framhald fundar ráðsins sem hófst í Suður-Kóreu í dag. „Þetta getur endað hvernig sem er ennþá,“ sagði Stefán við Fréttavef Morgunblaðsins að loknum fundi ráðsins.
„Það sem er að okkar mati langstærsta málið á þessum fundi er mál varðandi stjórn hvalveiða í atvinnuskyni og það er ekki á dagskrá fyrr en á morgun. Það sem skipti mestu máli í dag var ekki endilega fundurinn í fundarherberginu heldur óformlegar samningaviðræður í bakherbergjum og frammi á gangi,“ segir Stefán. Hann segist ekki viss um að málið verði útkljáð á morgun og verði hugsanlega á dagskrá út vikuna. Þreifingar séu í gangi og of snemmt að segja til um lyktir málsins.
Hvalveiðisinnar biðu ósigur í þremur atkvæðagreiðslum sem fram fóru á fundinum í dag. Þar var meðal annars felld tillaga Japana um að atkvæðagreiðslur innan ráðsins yrðu leynilegar. Spurður um hvort niðurstöður atkvæðagreiðslnanna í dag gæfu tilefni til svartsýni á framhald fundarins sagði Stefán málið nokkuð flókið. Endanleg afgreiðsla á ákvörðun um hvalveiðar í atvinnuskyni verði sennilega ekki tekin fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári en 3/4 hluta atkvæða þarf til þess að slíkar veiðar verði samþykktar. „Það sem við erum að reyna að gera er að ná saman breiðum hóp,“ segir Stefán. „Hvalveiðiandstæðingarnir eru ennþá með meirihluta en hann er reyndar mjög tæpur. Í einni atkvæðagreiðslunni af þremur í dag munaði aðeins einu atkvæði,“ segir Stefán. Hann bætir við að aðildarríkjum í ráðinu sé að fjölga og og sú þróun þýði að saman dragi með fylkingunum.
Málamiðlunartillaga Dana
Stefán segir að í dag hafi Íslendingar átt viðræður á göngum og í bakherbergjum um málamiðlunartillögu sem Danir hafa lagt fram um endurskoðaðar veiðireglur.
„Danir eru ein af þeim þjóðum sem við vinnum náið með til þess að reyna að koma þessu máli í réttan farveg,“ segir Stefán. Hann segir tillögur Dana byggjast fyrst og fremst á tillögu Henrik Fischers, formanns ráðsins, frá því á síðasta fundi.
Í greinargerð Fischers eftir fund ráðsins í fyrra segir meðal annars að mikilvægt sé fyrir trúverðugleika ráðsins að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni með sérstökum skilyrðum. Leyfa eigi hvalveiðar í þrepum og að hægt eigi að vera að leyfa einhverjar veiðar fyrir árið 2006.