Þjóðum sem vilja að hvalveiðar verði heimilaðar að nýju tókst ekki að ná stuðningi meirihlutans i á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hófst í hvalveiðibænum Ulsan í Suður-Kóreu í dag. Verndunarsinnar höfðu fyrir fundinn óttast að Japönum, sem eru í fararbroddi þeirra ríkja sem vilja að banni gegn hvalveiðum verði aflétt, tækist að afla hugmynd sinni nægilegs fylgis til þess að hún yrði samþykkt.
Tillaga Japana um að umræða um frekari verndarsvæði hvala yrði tekin af dagskrá ráðsins var felld með 29 atkvæðum gegn 28 á fundinum í dag. Er ósigurinn talinn vísbending um að hvalveiðisinnum takist ekki að tryggja sér stuðning meirihluta ráðsins, en 66 ríki eiga sæti í því. Alls þarf 3/4 hluta atkvæða til að aflétta hvalveiðibanni sem verið hefur í gildi í 19 ár.
Japanir eru því andsnúnir að ný verndarsvæði verði ákveðin og lögðu til að málið, ásamt öðrum málum sem hvalveiðisinnar eru mótfallnir, verði tekin af dagskrá fundarins. 29 fulltrúar studdu tillöguna en 29 greiddu atkvæði gegn henni. Daninn Henrik Fischer, formaður ráðsins, sagði í framhaldinu að dagskrá fundarins yrði ekki breytt.
Hvalveiðar í hagnaðarskyni hafa verið bannaðar frá árinu 1986. Noregur er eina landið sem stundar hvalveiðar í atvinnuskyni en Íslendingar og Japanir stunda vísindaveiðar á hval. Á þessu ári er búist við því að Japanir, Norðmenn og aðrar þjóðir veiði meira en 1.550 hvali.