Hvalveiðisinnar töpuðu á fyrsta degi fundar Alþjóðahvalveiðiráðsins

Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, ræðir við Ole Samsing og …
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, ræðir við Ole Samsing og Amalie Jessen, fulltrúa Dana, við upphaf ársfundar hvalveiðiráðsins í morgun. AP

Þjóðum sem vilja að hval­veiðar verði heim­ilaðar að nýju tókst ekki að ná stuðningi meiri­hlut­ans i á fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins sem hófst í hval­veiðibæn­um Uls­an í Suður-Kór­eu í dag. Vernd­un­ar­sinn­ar höfðu fyr­ir fund­inn ótt­ast að Japön­um, sem eru í far­ar­broddi þeirra ríkja sem vilja að banni gegn hval­veiðum verði aflétt, tæk­ist að afla hug­mynd sinni nægi­legs fylg­is til þess að hún yrði samþykkt.

Til­laga Jap­ana um að umræða um frek­ari vernd­ar­svæði hvala yrði tek­in af dag­skrá ráðsins var felld með 29 at­kvæðum gegn 28 á fund­in­um í dag. Er ósig­ur­inn tal­inn vís­bend­ing um að hval­veiðisinn­um tak­ist ekki að tryggja sér stuðning meiri­hluta ráðsins, en 66 ríki eiga sæti í því. Alls þarf 3/​4 hluta at­kvæða til að aflétta hval­veiðibanni sem verið hef­ur í gildi í 19 ár.

Jap­an­ir eru því and­snún­ir að ný vernd­ar­svæði verði ákveðin og lögðu til að málið, ásamt öðrum mál­um sem hval­veiðis­inn­ar eru mót­falln­ir, verði tek­in af dag­skrá fund­ar­ins. 29 full­trú­ar studdu til­lög­una en 29 greiddu at­kvæði gegn henni. Dan­inn Henrik Fischer, formaður ráðsins, sagði í fram­hald­inu að dag­skrá fund­ar­ins yrði ekki breytt.

Hval­veiðar í hagnaðarskyni hafa verið bannaðar frá ár­inu 1986. Nor­eg­ur er eina landið sem stund­ar hval­veiðar í at­vinnu­skyni en Íslend­ing­ar og Jap­an­ir stunda vís­inda­veiðar á hval. Á þessu ári er bú­ist við því að Jap­an­ir, Norðmenn og aðrar þjóðir veiði meira en 1.550 hvali.

mbl.is