Tillaga Japana um að atkvæðagreiðslur innan Alþjóða hvalveiðiráðsins verði leynilegar var felld með 30 atkvæðum gegn 27 á ársfundi ráðsins sem hófst í dag í Suður-Kóreu. Rök Japana fyrir tillögunni voru þau, að með henni væri afstýrt hættu á, að umhverfisverndarhópar og ríki andvíg hvalveiðum beiti minni ríki þvingunum.
Andstæðingar hvalveiða voru hins vegar andvígir tillögunni. Sögðu þeir að slíkar atkvæðagreiðslur ættu sér engin fordæmi hjá alþjóðasamtökum og með samþykkt hennar hefði verið boðið upp á baktjaldamakk.
Búist var við því fyrir ársfundinn að fylkingar þeirra aðildarríkja sem eru andvígar hvalveiðum og hinna sem vilja leyfa veiðar væru nokkuð jafnar og jafnvel að hvalveiðisinnahópurinn væri orðinn stærri. Svo virðist ekki vera ef marka má niðurstöður atkvæðagreiðslna í morgun en tvær dagskrártillögur Japana voru einnig felldar.
Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, sagði að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar væri sennilega sú mikilvægasta á ársfundinum, sem stendur fram á föstudag. „Þetta þýðir að þessi samtök eru áfram trúverðug," sagði hann. „Hefði leynileg atkvæðagreiðsla verið tekin upp hefðum við tapað þeim trúverðugleika sem skiptir öllu máli fyrir gegnsæja málsmeðferð."
Ónafngreindur meðlimur í sendinefnd Japana gerði hins vegar ekki mikið úr niðurstöðunni en sagði að um hefði verið að ræða lýðræðislega tillögu til að vernda lítil ríki fyrir hótunum. Sagði hann að mörg þróunarríki sættu miklum þrýstingi til að reyna að tryggja að þau greiddu atkvæði með ákveðnum hætti. Leynileg atkvæðagreiðsla hefði komið í veg fyrir það.
Japanar tilkynntu við upphaf fundarins í morgun, að þeir ætluðu að auka vísindaveiðar sínar og veiða samtals um 1300 hvali á þessu ári, þar á meðal hnúfubak og langreyði.