Alþjóðahvalveiðiráðið felldi á ársfundi sínum í Ulsan í Suður-Kóreu í dag tillögu frá Japönum um að leyfa takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni á ný en bann við slíkum veiðum hefur verið í gildi í næstum tvo áratugi. Í atkvæðagreiðslu um málið greiddu 29 ríki atkvæði gegn því að veiðar í atvinnuskyni yrðu leyfðar að nýju en 23 ríki studdu tillöguna. Fulltrúar 5 ríkja sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Ljóst var að engar líkur voru á að 3/4 aðildarríkja hvalveiðiráðsins myndu samþykkja það á ársfundinum að hvalveiðar í atvinnuskyni geti hafist að nýju en þá hefði sú niðurstaða verið bindandi. Japanar höfðu hins vegar vonast til að meirihluti ríkjanna myndu styðja tillögu þeirra um að takmarkaðar hvalveiðar geti hafist að nýju. Það hefði verið til marks um að stuðningsríki hvalveiða hefðu náð meirihluta í ráðinu.
66 ríki eiga sæti í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ráðið bannaði veiðar á hvölum í atvinnuskyni árið 1986. Alþjóðahvalveiðiráðið hefur í rúman áratug unnið að gerð nýrra veiðistjórnunarreglna, sem eru forsenda þess að hvalveiðar í atvinnuskyni verði teknar upp að nýju. Danir, sem eru í forsæti ráðsins, hafa undanfarin misseri reynt að ná fram málamiðlun um reglurnar en Japanar hafa ekki verið sáttir við þær hugmyndir sem Danir hafa sett fram og lögðu því fram eigin tillögu, sem þeir sögðu að væri raunhæf málamiðlun. Andstæðingar hvalveiða sögðu hins vegar að tillaga Japana gengi ekki nærri nógu langt og Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, sagði raunar að tillagan væri móðgun. Ian Campbell, umhverfisráðherra Ástralíu, sagði, að um væri að ræða veiðiáætlun, sem þjóðir sem taka sjálfbæra nýtingu alvarlega, myndu ekki einu sinni leggja fram um sardínur eða þorsk.
Umhverfisverndarsinnar sögðu að tillaga Japana tæki ekki á málum á borð við þjáningar hvala þegar þeir eru veiddir og hvernig eftirliti með hvalveiðum verði háttað.
Japanar ítreka hótun um að ganga úr hvalveiðiráðinu
Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundinum, sagði hins vegar við APF fréttastofuna að hann teldi japönsku tillöguna vera raunhæfa málamiðlun um strangar veiðireglur fyrir sjálfbærar hvalveiðar í atvinnuskyni.
„Við erum ekki að taka um óheftar veiðar og þetta skjal gerir ráð fyrir takmörkuðum veiðum með ströngu eftirliti. Í augum margra er það raunhæf krafa," sagði hann.
Morishita sakaði andstæðinga hvalveiða um að reyna að eyðileggja hvalveiðiráðið. „Sú öfgaafstaða, sem kemur fram hjá sumum þjóðum sem eru andvígar hvalveiðum, tefur vinnuna og miðar í raun að því að eyðileggja þessi samtök. Við teljum að það verði að ná samkomulagi um eitthvað sem kemur skikk á þessi samtök og færir þau aftur í átt að því hlutverki sem þeim var í upphafi ætlað að gegna: Að stjórna hvalveiðum í stað þess að banna þær," sagði hann.
Morishita ítrekaði hótun Japana um að ganga úr hvalveiðiráðinu ef málum þokaði ekki fram á veginn. Sagði hann að japanska ríkisstjórnin væri undir miklum þrýstingu frá þingmönnum. „Í gær komu hingað 22 þingmenn frá Japan og fóru fram á, að við íhuguðum þann möguleika að ganga úr hvalveiðiráðinu og hefja einhliða hvalveiðar innan 200 mílna efnahagslögsögu okkar. Ég veit að slíkar aðgerðir myndu ganga langt en ríkisstjórnin getur ekki hunsað slíkar tillögur þingmanna," sagði hann.