Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins samþykkti í morgun ályktun þar sem áform Japana um að stórauka vísindaveiðar sínar á hvölum eru fordæmd. Eru Japanar hvattir til að hætta vísindaveiðunum. Ályktunin, sem samþykkt var með 30 atkvæðum gegn 27, er ekki bindandi og segjast Japanar ætla að framfylgja áætlunum sínum. Ekkert hefur verið fjallað um vísindaveiðar Íslendinga á hrefnu á fundinum.
Ástralar lögðu tillöguna fram á fundinum ásamt Nýsjálendingum og fleiri ríkjum. Eftir atkvæðagreiðsluna sagði Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, að niðurstaðan sýndi að meirihluti ríkja teldi hvalveiðar Japana í Suðurhöfum væri ekki viðunandi.
Akira Nakamae, embættismaður í japanska sjávarútvegsráðuneytinu, sagði að þrátt fyrir niðurstöðuna á ársfundi hvalveiðiráðsins yrði vísindaveiðiáætluninni framfylgt en Japanar og önnur aðildarríki ráðins hafa rétt til að stunda vísindaveiðar á hvölum þrátt fyrir að bann sé í gildi við hvalveiðum í atvinnuskyni.
„Þótt við höfum tapað þá erum við ánægðir," sagði Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar og sagði að lítill munur í atkvæðagreiðslunni sýndi að mikill stuðningur væri við vísindaáætlun Japana.
Hvalveiðiráðið gefur einnig út kvóta til svonefndra frumbyggjaveiða, aðalleg til Inúíta á Grænlandi og í Alaska. Fulltrúi Grænlendinga í dönsku sendinefndinni tilkynnti á ársfundinum í morgun, að frá og með næsta ári yrði sandreyðakvóti grænlenskra frumbyggja lækkaður úr 19 dýrum í 10 en vísindanefnd ráðsins hefur lagt til að dregið yrði úr veiðunum.