Ástralar og Nýsjálendingar, sem eru meðal helstu andstæðinga hvalveiða innan Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) segja þörf brýna þörf á umbótum innan ráðsins, að því er fram kom í máli Chris Carter umhverfisráðherra Nýja-Sjálands í dag. Carter sagði að á fundi ráðsins, sem nú stendur yfir í Ulsan í Suður-Kóreu, hefðu komið í ljós alvarlegir brestir, en hart verndunarsinnar og hvalveiðisinnar, með Japana í broddi fylkingar, hafa deilt hart á fundinum.
„Ég fer vonsvikinn af fundinum. Ég tel að þessi samtök þurfi bráðnauðsynlega á miklum umbótum að halda,“ sagði hann í samtali við AFP-fréttastofuna. „Samkvæmt sjúkdómsgreiningu minni eru þetta afar sjúk samtök sem þurfa á tafarlausri aðstoð lækna að halda,“ sagði Carter og bætti við að hann og Ian Campebell, starfsbróðir hans í Ástralíu, vildu boða til ráðherrafundar þar sem rætt yrði hvernig best væri að breyta starfsemi IWC og gera hana skilvirkari.