Tveir bátar, Dröfn RE og Njörður KO, hafa nú þegar haldið til hrefnuveiða en sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið að vegna yfirstandandi hrefnurannsókna skuli veiddar 39 hrefnur í júlí og ágúst 2005. Þrír bátar munu vera við veiðar í þessu skyni en Halldór Sigurðsson ÍS leggur úr höfn þegar veður leyfir.
Ekki var búið að veiða neinn hval þegar Morgunblaðið hafði samband við þá Gunnar Jóhannsson og Guðmund Haraldsson, skipstjóra Drafnar RE og Njarðar KO, í gærkvöldi en báðir höfðu séð eitthvað af hrefnum. Þeir sögðust ekki snúa til hafnar fyrr en búið væri að ná í hval.
„Við höfum séð svolítið af hval en það hefur verið einhver styggð í þeim,“ segir Gunnar Jóhannsson og bætir við í gamansömum tón: „Hvalaskoðunarfyrirtækin eru búin að hræða hvalinn.“
„Kjötið er aukaatriði“
Konráð Eggertsson, skipstjóri á Halldóri Sigurðssyni ÍS, segir að ekki sé laust við að spenningur sé í mönnum vegna hinna fyrirhuguðu veiða en finnst það miður að heyra málflutning forsvarsmanna hvalaskoðunarfyrirtækja í tengslum við veiðarnar.
„Þetta eru fyrst og fremst vísindaveiðar og kjötið er aukaatriði. Hins vegar er markaðssetning á kjötinu þegar hafin en hún hefur gengið mjög vel og eftirspurnin er að aukast.“
Um borð í hverjum hinna þriggja báta eru tveir vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun auk þriggja manna áhafnar. Droplaug Ólafsdóttir, leiðangursstjóri frá Hafró, er um borð í Dröfn RE. Hún segir að hér sé um yfirgripsmiklar rannsóknir að ræða en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir því að veiða 200 dýr á tveimur árum.
„Ráðherra ákvað að fara hægar í sakirnar og við [...] höfum því þurft að endurskipuleggja hraðann á sýnatökunni og ákváðum að taka það sem á vantaði fyrsta hundraðið núna en það eru 39 dýr. Við erum þá hálfnuð í sýnatökunni og eigum hundrað dýr eftir,“ segir Droplaug en stefnt er á að veidd verði hundrað dýr á næsta ári.