Hrefnuveiðar sumarsins eru á áætlun en 35 hrefnur hafa verið veiddar af þeim 39 sem veiða á í sumar. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir veiðarnar hafa gengið vel og að stefnt sé að því að ljúka þeim í næstu viku.
"Við tökum á annað hundrað sýna úr hverju dýri, greinum þau og vinnum síðan niðurstöður," segir Gísli og gerir ráð fyrir að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í vetur.
Gísli segir að í heild standi til að veiða tvö hundruð hrefnur og veiðarnar eru nú hálfnaðar. "Núna höfum við fengið helminginn af sýnunum og náð dreifingu yfir alla árstíma og í kringum landið," segir hann.