Búið er að veiða þær 39 hrefnur sem ákveðið var að veiða árið 2005 í samræmi við áætlun um átak í hrefnurannsóknum. Alls hafa nú verið veiddar 100 hrefnur vegna rannsóknanna sem hófust í ágúst 2003. Hafrannsóknastofnun segir, að sýnatakan sé því hálfnuð en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir veiðum á 200 hrefnum.
Þrír bátar voru leigðir til veiðanna: Njörður KÓ, Halldór Sigurðsson ÍS og Dröfn RE og voru veiðar stundaðar allt í kringum landið á tímabilinu 4. júlí til 17. ágúst 2005. Veiðunum var dreift í hlutfalli við útbreiðslu hrefnu hér við land að sumarlagi. Síðasta hrefnan veiddist í morgun.
Hafrannsóknastofnun segir, að sýnasöfnun og önnur gagnaöflun hafi gengið vel, þótt óhagstætt tíðarfar hafi tafið veiðarnar á tímabili. Dreifing hrefnu við landið hafi virst nokkuð frábrugðin því sem var í flugtalningum í júlí á tímabilinu 1986-2001 og var lítið um hrefnu á sumum svæðum þar sem hún er venjulega algeng á þessum árstíma. Einnig virtist minna fuglalíf á þessum svæðum.
Sýnatakan er mjög umfangsmikil og hefst úrvinnsla þeirra gagna sem safnað var í sumar strax í haust að loknum sumarleyfum starfsmanna. Samkvæmt rannsóknaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar verða alls veidd 200 dýr og munu endanlegar niðurstöður rannsóknanna í heild liggja fyrir að lokinni úrvinnslu allra sýna. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðaniðurstöður úr þessum fyrri helming rannsóknanna verði lagðar fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins sumarið 2006.
Stofnunin segir, að meginmarkmið rannsóknanna sé að afla grunnupplýsinga um fæðuvistfræði hrefnu á landgrunni Íslands en auk fæðurannsókna séu gerðar fjölþættar aðrar rannsóknir á hverri veiddri hrefnu, t.d. á sviði erfðafræði, heilsufræði, æxlunarlíffræði, orkubúskapar og lífeðlisfræði. Ásamt Hafrannsóknastofnuninni koma vísindamenn frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Landspítala Háskólasjúkrahúsi o.fl. aðilum að rannsóknunum.
Auk rannsókna á veiddum dýrum eru hvalatalningar úr flugvél og merkingar hrefnu með gervitunglasendum mikilvægur hluti hrefnurannsóknanna. Meginmarkmið þeirra rannsókna er að afla upplýsinga um fjölda og útbreiðslu hrefnu að vori, sumri og hausti og hafa þær rannsóknir þegar skilað mikilsverðum nýjum upplýsingum um far hrefnu í Norður Atlantshafi. Upplýsingar um hrefnuveiðar Hafrannsóknastofnunar