Svar Árna M. Mathiesen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra við orðum Ians Campbells, umhverfisráðherra Ástralíu, birtist í gær í blaðinu Canberra Times. Sjávarútvegsráðuneytið segir, að í heilan mánuð hafi árangurslaust verið reynt að fá svarið birt í sama blaði og birti orð ástralska umhverfisráðherrans, Daily Telegraph í Ástralíu.
Í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins í dag segir:
„Það var í viðtali í Daily Telegraph í síðasta mánuði sem umhverfisráðherra Ástrala, Ian Campbell, spurði hvort Árni M. Mathiesen væri fífl eða sagði: „Is the man a fool?“ Þetta sagði hann í tengslum við það að Árni M. Mathiesen benti ráðherranum á að gott væri ef Ástralir leggðu fram gögn á næsta ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) um aflífunaraðferðir á stórum spendýrum eins og kengúrum og kameldýrum. Slík gögn væru gagnlegt til samanburðar við aflífunaraðferðir á hvölum. Þetta taldi Ian Campbell vera algjöra fásinnu þ.e. að óska eftir slíkum gögnum á fund um hvali. Eða eins og hann sagði orðrétt: „They should be deeply embarrassed by this.““
Í svari sínu bendi Árni Ian Campbell á „að ósk um slík samanburðargögn grundvallast á ályktun sem samþykkt var árið 2001 af Alþjóðahvalveiðiráðinu og að það voru Ástralir sjálfir sem lögðu hana fram. Þannig var Árni M. Mathiesen einungis að benda Áströlum á að fylgja ályktun Alþjóðahvalveiðiráðsins um þessi atriði og í raun að fylgja reglum sem þeir lögðu sjálfir fram“, segir í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins.