Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn, IFAW, birtir heilsíðu auglýsingu í breska blaðinu The Times í dag til að vekja athygli á hvalveiðum Íslendinga. Í auglýsingunni sést samsett ljósmynd þar sem höfuð Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, hefur verið sett á mynd af veitingamanni sem heldur á hvalkjöti á diski. Undir myndinni segir: Spurðu spurningarinnar Tony: Hvenær mun hann stöðva hvalveiðar Íslendinga? Er þar vísað til þess að þeir Halldór og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands munu eiga fund í Lundúnum í dag.
Í texta í auglýsingunni segir, að Halldór sé í Bretlandi til að hitta Tony Blair. Alþjóðlegt hvalveiðibann hafi verið í gildi frá árinu 1986. Ísland geti hins vegar veitt hvali vegna þess að reglur leyfi veiðar í vísindalegum tilgangi. Kjöt úr þessum hvölum sé selt í íslenskum veitingahúsum og matvöruverslunum. Ísland hafi drepið 101 hval á síðustu þremur árum og ætli að veiða fleiri hvali á þessu ári þótt 86% Íslendinga hafi ekki keypt neitt hvalkjöt í rúmlega ár.
IFAW segist vera andvígt hvalveiðum, hvort sem er í vísindaskyni eða atvinnuskyni. „Það er engin mannúðleg aðferð við að drepa hvali," segir síðan í auglýsingunni.