Dýraverndarsamtök birta auglýsingu gegn hvalveiðum Íslendinga

Auglýsingin sem birtist í The Times í dag.
Auglýsingin sem birtist í The Times í dag.

Alþjóða dýra­vernd­un­ar­sjóður­inn, IFAW, birt­ir heilsíðu aug­lýs­ingu í breska blaðinu The Times í dag til að vekja at­hygli á hval­veiðum Íslend­inga. Í aug­lýs­ing­unni sést sam­sett ljós­mynd þar sem höfuð Hall­dórs Ásgríms­son­ar, for­sæt­is­ráðherra, hef­ur verið sett á mynd af veit­inga­manni sem held­ur á hval­kjöti á diski. Und­ir mynd­inni seg­ir: Spurðu spurn­ing­ar­inn­ar Tony: Hvenær mun hann stöðva hval­veiðar Íslend­inga? Er þar vísað til þess að þeir Hall­dór og Tony Bla­ir, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands munu eiga fund í Lund­ún­um í dag.

Í texta í aug­lýs­ing­unni seg­ir, að Hall­dór sé í Bretlandi til að hitta Tony Bla­ir. Alþjóðlegt hval­veiðibann hafi verið í gildi frá ár­inu 1986. Ísland geti hins veg­ar veitt hvali vegna þess að regl­ur leyfi veiðar í vís­inda­leg­um til­gangi. Kjöt úr þess­um hvöl­um sé selt í ís­lensk­um veit­inga­hús­um og mat­vöru­versl­un­um. Ísland hafi drepið 101 hval á síðustu þrem­ur árum og ætli að veiða fleiri hvali á þessu ári þótt 86% Íslend­inga hafi ekki keypt neitt hval­kjöt í rúm­lega ár.

IFAW seg­ist vera and­vígt hval­veiðum, hvort sem er í vís­inda­skyni eða at­vinnu­skyni. „Það er eng­in mannúðleg aðferð við að drepa hvali," seg­ir síðan í aug­lýs­ing­unni.

mbl.is